Sigmundur Davíð óskar eftir umræðu á þinginu um ástandið á landamærunum

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson þingmaður Miðflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra hefur óskað eftir því að umræða um ástandið á landamærunum á Keflavíkurflugvelli þar sem lýst hefur verið yfir hættuástandi vegna þess mikla fjölda hælisleitenda sem hingað leita, verði tekin upp á þingi.

Sigmundur og Bergþór Ólason viðruðu áhyggjur sínar af stöðu mála á þingfundi í gær en þar sagði Sigmundur meðal annars.

„Herra forseti. Eftir að ríkislögreglustjóri lýsti yfir hættuástandi á landamærunum vegna mikillar fjölgunar hælisleitenda og úrræðaskorts til að takast á við þá þróun hafa a.m.k. tveir ráðherrar viðurkennt að hér sé um að ræða alvöruvanda sem þurfi að takast á við. Það sem mér þótti enn merkilegra var að þessir tveir hæstvirtu ráðherrar, dómsmálaráðherra og fjármálaráðherra, viðurkenndu að þetta hefði ekki gerst af sjálfu sér heldur væri það afleiðing þeirrar stefnu sem við höfum rekið hér á Íslandi eða íslensk stjórnvöld hafa rekið og ekki hvað síst og alveg sérstaklega ríkisstjórn.“ segir Sigmundur.

Bergþór tekur í sama streng og segist óttast að sú stefna sem hér ríki í málefnum hælisleitenda muni koma niður á þjónustu við þá sem hingað leiti því fjöldinn sé einfaldlega of mikill til að hægt verði að taka vel á móti öllum.

„Nú held ég, virðulegur forseti, að við hér í þinginu verðum að fara að ræða þessi mál út frá staðreyndum frekar en tilfinningu því að ef við ætlum að ræða þessi mál út frá tilfinningum áfram, sem hefur verið meginreglan undanfarin ár, þá verður mjög erfitt að komast á þann stað að taka raunverulega vel á móti þeim sem við ætlum að taka á móti, getum tekið á móti og eiga rétt á að vera hér samkvæmt þeim alþjóðlegum skuldbindingum sem við höfum undirgengist. Ég held að þegar þeir sem næst þessu standa eru farnir að tala með mjög ákveðnum hætti um að næstu skref sé uppsetning flóttamannabúða á Íslandi“ segir Bergþór.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila