Skatturinn á rafmagni lækkaður um 99% í Danmörku

Danska þingið ákvað á föstudag að afnema skatt á raforku í grundvallaratriðum. Eftir er skilið eitt prósent af tæknilegum og stjórnsýslulegum ástæðum og til að stangast ekki á við ESB, sem telur sig hafa ákvörðunarrétt um orkuskatta aðildarríkjanna. Í Svíþjóð æðir „krataverðið“ hins vegar áfram upp úr öllu valdi og ef ekkert verður að gert verður sjálfkrafa mikil skattahækkun um áramótin.

Raunverulega þýðir ákvörðunin, að skattur á raforku lækkar úr 70 DKK í 8 DKK á kílóvattstund. Í Svíþjóð er þess í stað gert ráð fyrir mikilli hækkun raforkuskatts vegna mikillar verðbólgu en hún hefur áhrif á skattinn. Ný blágul ríkisstjórn með meirihluta þings á bak við sig getur tekið ákvarðanir um breytingar. En stjórnarmyndun gengur hægt og enn um sinn situr krata-stjórn Magdalenu Andersson áfram sem starfandi stjórn.

Segir ríkisstjórnina vilja rétta landsmönnum hjálparhönd á erfiðum tímum

Nicolai Wammen, fjármálaráðherra Danmerkur, tjáir sig um skattalækkunina og segir, að ríkisstjórnin vilji veita Dönum hjálparhönd á erfiðum tímum. Jafnframt opnar hann fyrir frekari aðgerðir í vetur þegar kuldinn skellur á, raforkuþörfin eykst og þar með einnig kostnaður heimila og fyrirtækja.

Danska skattalækkunin á raforku mun í fyrstu gilda fram á mitt næsta ár. Hvað gerist eftir það fer eftir því, hvernig raforkumarkaðurinn þróast.

Áætlað er að skattalækkunin lækki tekjur danska ríkisins um um 3,5 milljarða danskra króna. Í augnablikinu liggja aðeins fyrir tillögur um bætur í ríkissjóð með skattahækkun á arði af hlutabréfum í eigu ríkisins.

Verðþak

Danmörk hefur einnig sett upp verðþak á rafmagni, gasi og hitaveitu fyrir viðskiptavini. Þetta þýðir, að neytandinn getur frestað greiðslu reikninga yfir ákveðna upphæð. Viðskiptavinir þurfa þá að greiða lága vexti upp á tvö prósent kjósi þeir að nýta sér þann kost. Núna er hámarkið 2,18 danskar krónur á kílóvattstund.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila