Skráning umdeildra skulda á vanskilaskrá er óheimil

Persónuvernd hefur birt úrskurð í máli neytanda sem kvartaði yfir skráningu á vanskilaskrá Creditinfo Lánstrausts hf., með liðsinni Hagsmunasamtaka heimilanna. Málið á rætur að rekja til ágreinings við Landsbankann um uppgjör eftirstöðva bílaláns með ólöglegri gengistryggingu. Þetta segir í tilkynningu frá Hagsmunasamtökum heimilanna.

Í tilkynningunni segir að Lögheimtan, sem fór með innheimtu lánsins, hafi ítrekað reynt að skrá skuldina á vanskilaskrá Creditinfo, þrátt fyrir að vera fyllilega ljóst að hún væri umdeild. Samkvæmt skilyrðum starfsleyfis Creditinfo er óheimilt að skrá umdeildar kröfur á vanskilaskrá, en þrátt fyrir það þurfti neytandinn árum saman að standa í sífelldum bréfasendingum til að mótmæla slíkum skráningum.

Lögheimtan höfðaði á endanum dómsmál til að innheimta skuldina og tókst að sannfæra dómara um að fallast á kröfu bankans. Fjórum dögum eftir að dómurinn var kveðinn upp í héraði fór Lögheimtan fram á að upplýsingar um hann yrðu skráðar á vanskilaskrá, en þá voru 24 dagar eftir af lögbundnum fresti til að áfrýja dómnum til Landsréttar. Í tilkynningunni kemur fram að með því hafiLögheimtan virt að vettugi eldri úrskurð í máli félagsmanns Hagsmunasamtaka heimilanna þar sem Persónuvernd kvað á um að Lögheimtunni hefði verið óheimilt að skrá dóm á vanskilaskrá sem enn væri unnt að áfrýja.

Daginn eftir að beiðni um skráningu dómsins á vanskilaskrá barst Creditinfo var neytandanum send tilkynning um að vanskil yrðu skráð 17 dögum síðar ef upplýsingar um uppgjör skuldarinnar myndu ekki berast innan þess tíma. Neytandinn mótmælti skráningunni rúmum sólarhring áður en sá frestur rann út en engu að síður var skuldin skráð á vanskilaskrá daginn áður en fresturinn rann út þegar enn voru 6 dagar eftir af áfrýjunarfresti dómsins. Þrátt fyrir að neytandinn hygðist áfrýja dómnum neitaði Creditinfo að afskrá hann af vanskilaskrá og varð ekki við mótmælunum fyrr en neytandinn hafði sótt um áfrýjunarleyfi og komið gögnum því til staðfestingar á framfæri.

Með liðsinni Hagsmunasamtaka heimilanna beindi neytandinn í kjölfarið kvörtun til Persónuverndar yfir fyrrnefndri háttsemi Lögheimtunnar og Creditinfo, sem hefur nú um tveimur árum seinna komist að niðurstöðu. Með úrskurðinum er staðfest að miðlun Lögheimtunnar á upplýsingum um dóminn til Creditinfo og færsla þeirra upplýsinga á vanskilaskrá áður en sá dómur varð endanlegur, hefði brotið gegn lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018.

Hagsmunasamtök heimilanna hvetja í tilkynningunni neytendur sem eiga í ágreiningi við kröfuhafa til að vera vel á varðbergi gagnvart óréttmætum skráningum á vanskilaskrá, því þær geta haft mjög neikvæð áhrif á lánshæfismat og frelsi hins skráða til viðskipta á fjármálamarkaði. Neytendur sem telja á sér brotið getað leitað til samtakanna eftir óháðri ráðgjöf um réttarstöðu sína.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila