Skúli Helgason býður sig fram í 3. sæti hjá Samfylkingunni fyrir borgarstjórnarkosningar

Skúli Helgason borgarfulltrúi Samfylkingarinnar í Reykjavík hefur ákveðið að bjóða sig fram í 3.sæti á lista Samfylkingarinnar fyrir komandi borgarstjórnarkosningar. Þetta kemur í tilkynningu frá Skúla sem send var fjölmiðlum í dag.

Í tilkynningunni segir að helstu áherslur Skúla verði á menntun og velferð barna og ungmenna að ógleymdum grænum áherslum í skipulagi, atvinnumálum og samgöngum.

„Jöfn tækifæri og jafnrétti til náms hafa verið rauður þráður í öllum mínum störfum í stjórnmálum – alveg frá því að ég tók fyrstu slagina í Röskvu, seinna sem formaður menntamálanefndar Alþingis og nú síðustu átta árin sem formaður skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur.“

Í tilkynningunni fjallar Skúli meðal annars um innleiðingu nýrrar menntastefnu sem hafi verið eitt af stóru verkefnunum á kjörtímabilinu

„Kjarni hennar er áherslan á fimm hæfniþætti sem við viljum styrkja hjá öllum börnum: félagsfærni, sjálfseflingu, heilbrigði, sköpun og læsi. Hugsjónin er sú að gefa hverju einasta barni tækifæri til að rækta styrkleika sína og láta draumana rætast á eigin forsendum.“

Þá vill Skúli halda áfram að vinna að jöfnuði meðal borgarbúa og gera betur í því að styðja þá sem höllum fæti standa í samfélaginu

„Mér er sérstaklega annt um að við hugum enn betur að börnum í viðkvæmri stöðu nú á tímum heimsfaraldurs sem veldur auknu álagi í skólasamfélaginu og á heimilum. Þar vil ég setja í forgang stuðning á sviði geðræktar til að stuðla að heilbrigði og vellíðan barna og ungmenna. Börnum verður að líða vel svo þau geti staðið sig vel í skólanum og geðrækt þurfum við að auka frá fyrstu skólastigum.“segir Skúli

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila