Söluandvirði Íslandsbanka jafnast á við alla fjárfestingu næsta árs

Í nýju frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2023 er gert ráð fyrir að um 100 milljörðum króna verði varið í fjárfestingar á komandi ári. Fjárfesting verður þannig áfram yfir langtímameðaltali, en stærsta einstaka byggingarframkvæmdin er bygging Nýs Landspítala, sem áætlað er að verja um 13,4 milljörðum króna til á næsta ári. Þá er gert ráð fyrir um 11,8 ma.kr. til endurgreiðslu á rannsókna- og þróunarkostnaði og 1,5 ma.kr. í tengivegi, svo fátt eitt sé nefnt. Af verkefnum í fjárfestingarátaki 2021–2023 má til að mynda nefna Samhæfingarmiðstöð viðbragðsaðila, samgöngusáttmála á höfuðborgarsvæðinu ásamt áframhaldandi fjárfestingu í upplýsingatækni til að bæta þjónustu ríkisins.

108 milljarðar í tveimur áföngum

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra ræddi fyrirhugaða fjárfestingu á komandi ári þegar hann kynnti nýlega fjárlagafrumvarpið og setti í samhengi við söluandvirði Íslandsbanka hingað til, en hlutir í bankanum hafa verið seldir í tveimur áföngum, árið 2021 og 2022 fyrir alls um 108 milljarða króna.

. „Það er hægt að segja sem svo að það virði sem við losuðum úr Íslandsbanka í þessum tveimur umferðum jafnist á við alla fjárfestingu ríkisins á næsta ári,“ sagði Bjarni. Eftirstandandi hlutur í bankanum gæti fjármagnað allar fjárfestingar ríkisins á einu ári. „Hinn kosturinn væri að taka fyrir því lán,“ sagði ráðherra.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila