Framkvæmdastjóra Sorpu sagt upp störfum

Stjórn Sorpu ákvað á fundi sínum í morgun að segja upp framkvæmdastjóra félagsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sorpu. Í tilkynningunni segir að ákvörðun eigi sér stoð í nýlegri skýrslu Innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um stjórnarhætti og áætlunargerð vegna gas- og jarðgerðarstöðvar þar sem voru gerðar alvarlegar athugasemdir við störf og upplýsingagjöf framkvæmdastjórans og gerð kostnaðaráætlana.

Að fengnum andmælum framkvæmdastjórans við efni skýrslunnar var ákveðið að veita honum áminningu í samræmi við ákvæði kjarasamnings og gefa honum kost á frekari skýringum og athugasemdum. Að þeim fengnum og í ljósi annarra aðstæðna var tekin ákvörðun um uppsögn.


Nýr framkvæmdastjóri ráðinn á sama fundi


Þá segir í tilkynningunni einnig hafi verið ákveðið á stjórnarfundinum í dag að ráða Dr. Helga Þór Ingason, prófessor við verkfræðideild Háskólans í Reykjavík, tímabundið í starf framkvæmdastjóra SORPU bs.

Helgi Þór er einnig forstöðumaður MPM náms – meistaranáms í verkefnastjórnun – við HR. Rannsóknir Helga Þórs og kennsla á framhalds- og grunnstigum háskóla hafa einkum snúist um verkefna- og gæðastjórnun. Helgi Þór var ráðinn tímabundið sem forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur á árunum 2010-2011.

 Þá segir í tilkynningunni að stjórn SORPU bs. muni ásamt Helga Þór og starfsmönnum SORPU bs. vinna að endurskipulagningu rekstrar fyrirtækisins með sjálfbærni, umhverfisvernd og samfélagslega þjónustu að leiðarljósi. Stjórnin muni í þeirri vinnu kappkosta að eiga náið samráð við eigendur SORPU bs. en félagið er rekið sem byggðasamlag sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Athugasemdir

athugasemdir

Deila