Spennandi tímar í tvíhliða samskiptum Íslands og Grænlands

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra fagnar niðurstöðu skoðanakönnunar sem framkvæmd var af Grænlandsháskóla og sýnir mikinn áhuga Grænlendinga á aukinni samvinnu landanna. Þetta kom fram í ræðu ráðherra á rafrænum fundi Hringborðs norðurslóða – Arctic Circle í dag.

Efnt var til fundarins í tilefni af útgáfu skýrslu Grænlandsnefndar utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra í janúar síðastliðnum.

Í erindi sínu ræddi Guðlaugur Þór sem fyrr segir um nýja skoðanakönnun sem var gerð af Grænlandsháskóla, Ilisimatusarfik, í samstarfi við HS Analyse í Nuuk og Norðurlandadeild Konrad-Adenauer Stiftung í Stokkhólmi.

Könnunin er sú fyrsta sem mælir viðhorf Grænlendinga til utanríkismála og í henni birtist mikill stuðningur þeirra við aukið samstarf við Ísland, ekki síst í samanburði við aðrar þjóðir.

Ég er sannfærður um að áhuginn er síst minni hér á Íslandi,“ sagði Guðlaugur. Hann lagði einnig áherslu á sameiginlega hagsmuni þjóðanna og mikilvægi náinnar samvinnu Grænlands og Íslands, sér í lagi á tímum loftslagsbreytinga þar sem sérstaða Grænlands er mikil.

Það eru spennandi tímar framundan í tvíhliða samskiptum Íslands og Grænlands og víðtækir möguleikar til samstarfs sem mun styrkja báðar þjóðir,“ sagði Guðlaugur Þór.

Össur Skarphéðinsson, formaður Grænlandsnefndarinnar, flutti einnig erindi og svaraði spurningum.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila