Stefnuræða forsætisráðherra: Loftslagsmálin, stríð í Evrópu og orkumálin í brennidepli

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti í kvöld stefnuræðu sína á Alþingi. Að venju var komið víða við í ræðunni og kom fáum á óvart að byrjað var á loftslagsmálunum sem eru ráðherranum og flokki hennar mjög hugleikin. Þar komu fram þau nýmæli að lagt yrði að nýju frumvarp um bann við olíuleit við Ísland.

„Til að ná hertum markmiðum munum við endurskoða fyrirliggjandi aðgerðaáætlun og setja fram sameiginleg markmið stjórnvalda og allra geira samfélagsins um hverju hver og ein atvinnugrein getur skilað í samdrætti í útblæstri. Lagt verður fram að nýju frumvarp um bann við olíuleit í efnahagslögsögunni sem mikilvægt er að verði afgreitt enda felast í því skýr skilaboð til umheimsins að Ísland ætlar að leggja sitt af mörkum til að takast á við þessa stærstu áskorun samtímans. Við erum á fullri ferð út úr kolefnishagkerfinu – inn í nýtt grænt hagkerfi.“sagði Katrín.

Þá minntist Katrín einnig á stríðið í Úkraínu og sagði Katrín meðal annars að stríðið hafi sýnt fram á með áþreifanlegum hætti mikilvægi fæðuöryggis.

„Langt er um liðið síðan Björn Halldórsson í Sauðlauksdal og Magnús Ketilsson hvöttu bændur til dáða í grænmetisrækt á 18. öld þegar kartaflan var lykill að því að lifa af í harðbýlu landi. Það var framsýni á þeim tímum. Á síðasta kjörtímabili var unnin matvælastefna, stofnaður matvælasjóður og stuðningur við garðyrkjubændur aukinn um fjórðung. Við munum halda áfram á sömu braut, landbúnaðarstefna verður lögð fyrir þingið og sett metnaðarfull markmið um að verða í auknum mæli sjálfum okkur nóg í grænmetisframleiðslu sem og í framleiðslu á öðrum landbúnaðarvörum.“

Orkumálin komu einnig við sögu í ræðu Katrínar og sagði Katrín að þakka megi að orkukerfi landsins séu enn undir innlendri stjórn.

„Nú þegar raforkuverð í Evrópu er himinhátt – þegar almenningur í Noregi, Þýskalandi, Bretlandi er jafnvel að borga margfalt verð fyrir hita og rafmagn á við okkur – er augljóst að við erum í öfundsverðri stöðu. Þetta er vegna þess að góðar og framsýnar ákvarðanir hafa verið teknar hingað til. Og miklu skiptir hvernig verður fram haldið. Þegar kemur að orkuskiptum og orkuframleiðslu þá er frumskylda okkar í þeim efnum við íslenskan almenning í nútíð og framtíð. Við þurfum að tryggja að öll orkunýting, hvort sem það er vatnsföll, jarðvarmi, vindurinn, sólarorka eða hvað annað, verði ábyrg, í sátt við náttúruna og í þágu almennings.“

Þá hefur þingmálaskrá einnig verið lögð fram en hana má sjá með því að smella hér.

Lesa má stefnuræðuna í heild með því að smella hér.

Deila