Stjórnarkreppa ESB: Dómur Stjórnlagadómstóls Póllands „jafngildi stríðsyfirlýsingu“ gegn Brussel

Andrzej Sebastian Duda forseti Póllands í ræðustól.
Stjórnlagadómstóll Póllands segir dóm ESB-dómsstólsins um réttarfar í Póllandi ómarktækan, vegna þess að hann sé í bága við stjórnarskrá Póllands.

Evrópusambandið er í bullandi stjórnarkreppu eftir dómsúrskurð stjórnlagadóms Póllands um að dómur ESB-dómstólsins gegn Póllandi sé í bága við stjórnarskrá Póllands. Telja sumir það “jafngilda stríðsyfirlýsingu” gegn Brussel. ESB stendur einnig ógn af Ungverjalandi og halda deilumálin áfram í sama dúr og í dag verða líklega bæði “Polexit” og “Huxit” á dagskrá fljótlega.

Framkvæmdastjórn ESB beinir skarpri viðvörun til Póllands: Lög ESB hafa alltaf forgang fram yfir lög þjóða

Í gær dæmdi pólski stjórnlagadómstóllinn, að úrskurður Evrópudómstólsins gegn umdeildum réttarfarslegum endurbótum í landinu, brýtur stjórnarskrá Póllands. Framkvæmdastjórn ESB beindi skarpri viðvörun til Póllands í dag: Lög ESB hafa forgang fram yfir pólsk lög og framkvæmdastjórnin mun sjá til þess, að þeim verði framfylgt. Í tilkynningu framkvæmdastjórnar ESB segir:

„Lög ESB hafa forgang yfir þjóðleg lög. Allar ákvarðanir ESB-dómstólsins….eru bindandi fyrir öll yfirvöld allra aðildarríkja og þjóðlegra dómstóla”

Niðurstöðu pólska stjórnlagadómstólsins hefur verið lýst sem „löglegu Pólexit“ og telja ýmsir fræðimenn, að dómurinn ógni öllu réttarfarskerfi ESB. Laurent Pech, prófessor í evrópskum lögum við Middlesex háskólann í London, sagði við The Guardian, að meðvituð útganga Póllands úr Evrópusambandinu væri „pólitískt sjálfsmorð.“ Hann spáði stigvaxandi „Pólexit úr lögsögu ESB“ og telur að ESB grípi „tafarlaust til daglegra fjárhagsrefsinga… og stöðvi allar fjárgreiðslur til Póllands“

Jafngildir „stríðsyfirlýsingu

Piotr Buras, yfirmaður Varsjárskrifstofu Evrópuráðsins, lýsir dómnum í Varsjá sem „stríðsyfirlýsingu.“ Hann sagði í viðtali við The Times nýlega: „Þetta jafngildir stríðsyfirlýsingu gegn nýju kerfi verndarlaga réttarríkis ESB.“

ESB hefur lengi eldað grátt silfur við sjálfstæðar hugsanir og gjörðir landanna í austri eins og Póllands og Ungverjalands, sem m.a. beittu neitunarvaldi gegn kórónusjóðs-pakka ESB eftir hótanir ESB um fjárhagslegar refsiaðgerðir gegn löndunum. Leiddi það til mikillar samningalotu milli landanna og búrókratanna í Brussel, sem að lokum var leyst.

Milan Nic, yfirmaður Robert Bosch miðstöðvarinnar fyrir Mið- og Austur-Evrópu, telur „útilokað að Pólland fari út úr ESB en líklegra að kjarninn í ESB haldi sjálfur áfram án Póllands og Ungverjalands.“ Aleksander Laszek, aðalhagfræðingur hjá Civil Development Forum í Varsjá, segir að Pólland verði áfram í ESB og „enginn talar í fullri alvöru um Polexit.“

Efnahagur Póllands háður ESB

Það sem getur hindrað möguleika Póllands að ögra Brussel er yfirgnæfandi stuðningur Pólverja við ESB skv. skoðanakönnunum. Pólska efnahagkerfið er einnig háð ESB. Árið 2018 fór tæplega 80% útflutnings til ESB og 58% af innflutningi til Póllands kom frá innri markaði ESB. Sjóðir ESB og þátttaka á innri markaðnum hefur gagnast Pólverjum og aukið tekjurnar – tekjur á mann hafa aukist úr 45% af meðaltali ESB árið 2004 í 70% árið 2017 skv. Eurostat.

Sjá nánar hér og hér

Athugasemdir

athugasemdir

Deila