Stjórnlaganefnd finnska þingsins stöðvar tillögu forsætisráðherrans um útigöngubann

Sanna Marin fær ekki grænt ljós hjá stjórnlaganefnd finnska þingsins, þar sem tillögur ríkisstjórnarinnar um útgöngubann ganga gegn stjórnarskránni.

Útvarp Saga hefur áður greint frá tillögum finnsku ríkisstjórnarinnar um lokanir og skerðingu ferðafrelsis Finna vegna farsóttarinnar. Stjórnlaganefnd finnska þingsins segir tillögurnar ganga gegn stjórnarskrá Finnlands, vegna víðtækra skerðinga á grundvallar mannréttindum. Stjórnlaganefndin hvetur ríkisstjórnina til að finna aðrar leiðir í baráttunni við veirufaraldurinn. Allir nefndarmenn voru samhljóða í afstöðu sinni.

Það er fremst tillaga ríkisstjórnarinnar að banna fólki að vera utandyra, sem stjórnlaganefndin telur að gangi of langt á frelsi einstaklingsins og brjóti gegn 23. grein finnsku stjórnarskrárinnar. Antti Rinne formaður stjórnlaganefndar, flokksbróðir Sanna Marin, segir tillögu ríkisstjórnarinnar ónauðsynlega og ekki sé gætt meðalhófs og að erfitt sé að túlka hana. „Það verður ómögulegt fyrir fólk að skilja, hvað er leyfilegt og hvað er óleyfilegt að viðhöfðum viðurlögum.“ Antti Häkkänen varaformaður nefndarinnar segir að „aðalboðskapur okkar er að tillagan gengur gegn stjórnarskránni. Þrátt fyrir að lagatillagan segi það vera takmarkanir á hreyfingarfrelsi, þá er í raun og veru verið að koma á útigöngubanni.“

Ríkisstjórnin vill einnig koma á skyldu að bera grímur í Finnlandi og telur stjórnlaganefnd að slíkt sé betur gert með breytingu á smitsjúkdómalögum. Sanna Marin forsætisráðherra tísti að ríkisstjórnin muni draga lagatillöguna til baka eftir yfirlýsingu stjórnlaganefndar. Hún hvetur alla Finna að draga úr félagssamskiptum og ekki „ferðast að óþörfu.“ Þakkar hún jafnframt öllum sem hlýða boðum yfirvalda og hvetur alla til að „halda út svo sumarið verði bjartara fyrir okkur öll.“

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila