Stjórnvöld hvött til þess að gæta að mannréttindum við ákvarðanatöku vegna aðgerða gegn Covid-19

Stjórn og fulltrúaráð Mannréttindaskrifstofu Íslands hafa sent frá sér ályktun þar sem stjórnvöld eru hvött til þess að gæta að mannréttindasjónarmiðum við alla ákvarðanatöku í tengslum við sóttvarnaaðgerðir. Þá eru stjórnvöld hvött til þess að gæta sérstaklega að mannréttindum viðkvæmra hópa og að ákvarðanir hafi ekki meiri áhrif á einn hóp umfram aðra. Í ályktuninni segir meðal annars

Allar skerðingar á mannréttindum eru áhyggjuefni. Þær þurfa að vera í samræmi við lög, nauðsynlegar í lýðræðissamfélagi, stefna að lögmætu markmiði og afar mikilvægt er að gæta meðalhófs, það er beita aldrei harðari ráðstöfunum en nauðsyn ber til og ekki lengur en þörf er á

Þá segir að horfa þurfi til þess hvaða áhrif aðgerðir hafa á mismunandi hópa eftir því hver staða þeirra sé

alveg sérstaklega hvað varðar berskjaldaða hópa að því leyti, svo sem fólk með tilteknar líkamlegar fatlanir og/eða sjúkdóma og aldrað fólk. Stjórnvöld þurfa þó að gæta meðalhófs og gæta þess vel að skerða ekki önnur mannréttindi og mannréttindi annarra hópa meira en nauðsyn ber til. Því þurfa stjórnvöld að meta hvort og hvernig aðgerðir þær sem gripið er til geti haft mismunandi áhrif á þjóðfélagshópa og viðhafa sérstakar aðgerðir til að koma í veg fyrir mismunun

Í ljósi þessa hvetja stjórn og fulltrúaráð Mannréttindaskrifstofu Íslands (MRSÍ) stjórnvöld til þess að tryggja samþættingu mannréttindasjónarmiða við alla ákvarðanatöku og í verkefnum og stefnumótun vegna aðgerða gegn COVID- 19 og endurreisn samfélagsins.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila