Stór munur á orðbundu kynferðisáreiti og kynferðisáreiti

Það er nauðsynlegt að endurskoða lagasetninguna hvað varðar kynferðisbrotamál ef menn ætla að fara að endurskilgreina kynferðisáreiti og bæta þar inn orðbundnu kynferðisáreiti því almennur skilningur á orðinu kynferðisáreiti er sá að þegar ásakanir um kynferðisáreiti eru settar fram þá feli það í sér líkamlega snertingu. Þetta var meðal þess sem fram kom í spjalli Arnþrúðar Karlsdóttur útvarpsstjóra og Péturs Gunnlaugssonar í símatímanum í morgun þar sem þau ræddu meðal annars meint kynferðisáreiti í Digraneskirkju.

Arnþrúður benti á að á hingað til hafi það verið þekkt þegar menn hafi viðhaft grófan talsmáta hafi þeir jafnan verið kallaðir klámkjaftar og að enginn hafi tekið slíkt sérstaklega nærri sér. Nú sé hins vegar búið að yfirfæra klámkjaft yfir í það að vera orðbundið kynbundið áreiti og þá sé greinilegt að laga þurfi lögin eitthvað til og laga þau að nútíma skilningi, þessi móðgun, óviðurkvæmlega hegðun og skoðanir sem ekki megi vera í kringum fólk.  Það virðist sem það sé móðgast yfir öllu nú til dags og ekki einungis fyrir sína hönd heldur fjölda annara einnig.

Arnþrúður segir þetta hafa byrjað með MeToo byltingunni sem gangi út á að með samanteknum ráðum að koma höggi á karla fyrir alls kyns framkomu sem eðli málsins samkvæmt einhverjir eigi skilið, þar sem slæm raunveruleg mál hafa komið upp og þá sé um að ræða kynferðisbrot í skilningi laganna.  Það sé nauðsynlegt að skilgreina þetta betur til þess að gera fólki grein fyrir því hvað það raunverulega þýðir, það sé eitt að vera klámkjaftur en það að vera með kynrænar athafnir sé annað í skilningi laga. 

Það er þekkt umræða þegar yfirmenn í fyrirtækjum og stofnunum nýta sér það í kynferðislegum tilgangi,þegar konur séu til dæmis að sækja um stöðuhækkun, þá geta skapast aðstæður sem eru gott dæmi um kynferðislegt áreiti og jafnvel misnotkun. Það sé hins vegar mikilvægt að gera sér grein fyrir því að það séu ekki allir karlmenn þannig þenkjandi.

„þessi stimplun og áróður um að karlmenn séu almennt vondir er það sem þarf að stoppa í umræðunni, það er einmitt vitleysan að alhæfa svona um annað kynið sé ómögulegt“ segir Arnþrúður

Flestir karlar séu einmitt mög fínir og heiðvirðir í öllu samstarfi og eru bara yndislegar manneskjur sem eiga alls ekki skilið slíka stimplun segir Arnþrúður.

„ég verð bara að skora á Alþingi eina ferðina enn að fólk verður að fara að tala um þetta af fullri einlægni, hætta þessu pukri á bak við tjöldin og etja saman stúlkum í litlum hópum og kreðsum og láta þær spretta fram með einhverjar árásir og síðan segist enginn bera ábyrgð á því, þessu verður að linna“segir Arnþrúður.

Hún segir því nauðsynlegt að skilgreina þetta alveg upp á nýtt, hins vegar sé sé inni í lögnunum frá 1980 um hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, lögum númer 46/1980 ákvæði sem tók á þessu og mjög gott að hafa það. Nú sé hins vegar búið að uppfæra og útfæra það með ýmsum hætti og nú síðast 2015 kom það með vinnuverndarlöggjöfinni skilgreiningar eins og hvað varðar móðgun eða meiðandi ummæli, það hafi hins vegar ekki fengið neina kynningu svo fólk viti almennt ekki um það, auk þess sem það sé viðurlagalaust.


„það er vandinn við þetta eins og stjórnsýslulögin að það eru engin viðurlög og því ónýtt plagg, það sé þó þar inni í þessu skjali sem líta á má sem leiðbeiningarplagg að komi upp mál sem varði kynferðisáreiti á vinnustað eða stofnun þá eigi að vísa því beint til lögreglu, það séu leiðbeiningarnar en hins vegar sé ekki farið eftir því.“segir Arnþrúður.

Sjá má afleiðingarnar til dæmis hjá Kirkjunni þar sem sett fram teymi, nokkurs konar rannsóknarteymi sem sé bullhugmynd sem sett var af stað á kirkjuþingi árið 2019, teyminu sé falið að rannsaka meint kynferðisbrotamál en virðist ekki fara eftir neinum lögum en halda því fram að það  fari ýmist eftir einkamálalögum og sakamálalögum sitt á hvað sem sé auðvitað eitthvað sem alls ekki gangi upp.


„enda kemur það á daginn að þessi Teymisvinna eftir því sem ég hef séð er alveg til háborinnar skammar og myndi aldrei halda vatni fyrir dómstólum, og þess vegna er svo áríðandi að fá heildstæða alvöru niðurstöðu í þessu máli og að hún sé sönn og sé vegin út frá lögum en ekki tilfinningum og sögusögnum, það er einfaldlega ekki marktækur vitnisburður „segir Arnþrúður.


Oddvitar eru leiðtogar sem bera ábyrgð

Þá ræddu Arnþrúður og Pétur um sambærilegt mál sem upp kom hjá Flokki fólksins á Akureyri þar sem konur í flokknum ásökuðu karla í flokknum og einum utan flokksins um kynferðislegt áreiti, en svo virtist að málið snerist um að þær voru ósáttar við að fá ekki að vera með í að skipa í ráð og nefndir, þarna hafi hlutirnir einfaldlega ekki verið kallaðir réttum nöfnum og samtímis ósæmileg framkoma sem féll í grýttan jarðveg.


„það er það sem ég er að segja að það þarf að kalla hlutina réttum nöfnum og þarna er oddviti listans auðvitað leiðtogi hópsins og hefur það hlutverk að gæta þess að þarna séu allir með sem að eru frambjóðendur og taka þátt í starfinu, þetta er í öllum flokkum svona alls konar skotgrafir“segir Arnþrúður.

Hitt sé annað mál að sá sem sé leiðtoginn á að gæta þess að ekki sé verið að setja einhvern í hugsanlegar eineltisaðstæður þar sem verið er að tala niðrandi um einhvern ítrekað líkt og stjórnandi á vinnustað þarf að gæta þess meðal sinna starfsmanna. Það sé alfarið oddvitans að gæta þess að þessi staða komi ekki upp og ef hún komi upp þá að leysa úr vandanum. Vandamál sem þessi sé vel þekkt innan stjórnmálaflokka.

Hlusta má á spjallið hér að neðan

Deila