Endurskoða leiðbeiningar um beitingu þvingunarúrræða á sjúkrastofnunum

Landspítalinn

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur skipað starfshóp til að meta hvort þörf sé á að setja frekari leiðbeiningar um útfærslu á þvingunarúrræðum en felast í lögræðislögum varðandi meðferð einstaklinga sem eru nauðungarvistaðir á sjúkrahúsi.

Í lögræðislögunum er meðal annars fjallað um meðferð nauðungarvistaðs einstaklings á sjúkrahúsi en í tuttugustu og áttundu grein laganna fylgir ákvæði um að heilbrigðisráðherra geti sett nánari reglur um þvingaða lyfjagjöf og aðra meðferð sem greinin tekur til.

Í tilkynningu segir að ef starfshópurinn telji að þörf sé á frekari leiðbeiningum en lesa megi úr lögunum sé starfshópnum ætlað að gera tillögu um form og helstu efnisákvæði slíkra leiðbeininga. Gert er ráð fyrir að hópurinn skili niðurstöðum sínum 15. nóvember næstkomandi.

Í starfshópnum sitja Helga Baldvins Bjargardóttir lögfræðingur, formaður hópsins. Halldóra Jónsdóttir, geðlæknir á Landspítala og Sigrún Ingvarsdóttir, félagsráðgjafi hjá Reykjavíkurborg.

Athugasemdir

athugasemdir

Deila