Svíar fleygja tillögum Bill Gates um kalk í himinhvolfum í ruslafötuna

Ekki eru allir sammála Bill Gates um að draga kalkteppi milli sólar og jarðar til að minnka upphitun jarðar.

Eins og hlustendur Útvarps Sögu muna kannski eftir, þá sögðum við frá SCoPEx-verkefni Harvard háskóla í samvinnu við sænsku geimvísindastofnunina í Kiruna, þar sem meiningin var að senda upp loftbelg til að úða kalki í háloftum og mæla útbreiðsluna. Mælingarnar áttu síðan að liggja til grundvallar reiknilíkani fyrir stórfellda kalkúðun í framtíðinni til að hindra sólarljós frá að ná jörðu og draga þannig úr hitun jarðar. Verkefnið er m.a. fjármagnað af auðkýfingnum Bill Gates.

Í vikunni barst tilkynning frá sænsku geimvísindastofnuninni sem segir að „Í dag skortir alþjóðasamþykktir varðandi nýtingu geimsins og sterkar raddir tala bæði fyrir og gegn rannsóknum á því sviði. Engar hreinar línur eru um, hvort slíkar rannsóknir séu hentugar. SSC hefur þess vegna, eftir viðræður við helstu sérfræðinga og hagsmunaaðila og í samráði við Harvard, ákveðið að framkvæma ekki prófflugið með loftbelg frá Esrange sem fyrirhugað var í sumar.“ Frétt Reuters um málið.

Samar í Svíþjóð hafa sent mótmælabréf til Harvard háskólans

Kenningar Bill Gates um að draga kalkteppi fyrir sólu í himinhvolfum til að stöðva upphitun jarðar veldur deilum geimvísindamanna og umhverfissinna, sem vara við möguleika á „stórslysi fyrir mannkyn” verði kenningunum framfylgt. Til dæmis hefur ráð Sama í Svíþjóð skrifað til Harvard vegna SCoPEx verkefnisins og varað við því að „tilraunir til að líkja eftir áhrifum eldgosa með því að úða efnum til að hindra sólarljós geta haft óafturkræfar félagslegar afleiðingar.” Að auki benda Samar á að aðferðin minnki engan vegin losun gróðurhúsalofttegunda sem taldar eru valda loftslagsbreytingum.

Myndband um SCoPEx verkefnið hér að neðan

Þótt Svíar setji rauða spjaldið á SCoPex-verkefnið, þá verður því ekki hætt og Harvard og Bill Gates halda því áfram í Bandaríkjunum með fjármagni frá ríkisstjórn Bandaríkjanna.

Athugasemdir

athugasemdir

Deila