Svíar spurðir, hvort þeir vilja láta setja í sig örflögur „til að fylgjast með sjúkdómum eins og covid-19″

Nú er rætt um í fullri alvöru að staðsetja örflögu undir húð fólks til að „skynja hvort viðkomandi sé smitaður af covid-19.“

Sænska sjónvarpið sagði frá því nýjasta í læknavísindum sunnudagskvöld, litlum örflögum sem settar eru í fólk til að „fylgjast með heilsunni og vinna gegn sjúkdómum.“ Sagt var frá því að bandarískir vísindamenn hefðu þróað örflögu sem sett er undir húðina til að uppgötva covid-19 og einnig var rætt við sænska vísindamenn fremstir í öreindatækni.

„Við erum núna að vinna að örflögu sem sett er í augað til að mæla magn af insúlíni í líkamanum“ segir Niclas Roxhed dósent í örtækni hjá Konunglega Tækniháskólanum í Stokkhólmi. „Við erum að rannsaka hvernig hægt er að koma lyfjum til skila inni í líkamanum með örflögum.“

Flagan er höfð undir húðinni og mælir magn súrefnis í vefunum. Tæki er haft fyrir utan sem tekur við sendingum flögunnar um súrefnismagnið.

„Örflagan getur mælt súrefni í vefjum sem er mikilvægt til að finna út hvort um veikindi sé að ræða. Þá er hægt að mæla líkamshitann í leiðinni sem getur gefið til kynna hvort viðkomandi sé smitaður af covid-19″ segir Niclas Roxhed. Verið er að þróa öreindatækni í örflögum sem hægt er að staðsetja í heila og augu krabbameins- og sykursjúkra.

Sænska sjónvarpið segir tæknina „notaða í öllum heiminum.“ Bandarískt fyrirtæki hefur m.a. þróað örskynjara sem er settur undir húðina og að sögn Business Insider „getur uppgötvað covid-19 mörgum dögum áður en viðkomandi byrjar að finna fyrir einkennum.“

Mundir þú vilja láta setja í þig örflögu til að uppgötva sjúkdóma?

Sænska sjónvarpið spurði fólk á förnum vegi í Stokkhólmi, hvort það mundi vilja láta setja inn örflögu í líkamann til að uppgötva sjúkdóma eins og covid-19. Flestum fannst hugmyndin afskaplega framandi en ekki öllum. Var fólki sýnd mynd af örflögu og sagði ein kona að „þetta lítur út eins og eitthvað sem sett er í fólk til að njósna um það.“ Ungur maður sagðist aldrei vilja setja slíka flögu í líkamann: „Hugsunin sjálf að hafa örflögu sem einhver annar hefur búið til inni í sínum eigin líkama….það er bara of framandi, svo nei takk.“ Annar maður sagðist einungis leyfa slíkt tæki í líkamanum ef „það væri bráðnauðsynlegt til að halda lífinu.“

„Það er alltaf einhver hætta, sérstaklega með hluti sem ekki er búið að prófa í botn“ sagði einn vegfarandinn. Ein kona fagnaði hins vegar hugmyndinni með örflögu í líkamann: „Ef flagan fylgist með heilsunni hef ég ekkert á móti því að fá hana í líkamann.“

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila