Fyrsta sýking kórónuveiru staðfest í Svíþjóð – Tíu þúsund manns smitaðir í Kína og á þriðja hundrað manns hafa látist

Heilbrigðisyfirvöld Svíþjóðar tilkynntu á blaðamannafundi á föstudag að fyrsti sjúklingur í Svíþjóð sem greinst hefði með kórónuveiru væri kona á þrítugsaldri sem hefði verið í heimsókn í Kína á sama svæði og veirufaraldurinn braust út. Við komuna til Svíþjóðar kenndi hún sér einskis meins en byrjaði seinna að hósta og fór þá sjálf í skoðun. Konan er núna í einangrun á sjúkrahúsinu Ryhov í Jönköping. Samkvæmt yfirlýsingu Malin Bengnér farsóttarlæknis líður konunni vel og ekki talið að hún hafi smitað aðra.

Heilbrigðisyfirvöld Svíþjóðar hafa rannsakað yfir tuttugu próf úr einstaklingum sem hafa komið heim frá Kína en aðeins ein sýking kórónuveiru fundist fram að þessu. Búist er við fleiri tilfellum en yfirvöld telja ekki að um farsótt sé að ræða enn sem komið er.

Tvö tilfelli hafa komið upp í Bretlandi en veiran breiðist sífellt hraðar út og  s.l. fimmtudag dóu 43 manns. Tala smitaðra í Kína er komin upp í tæp 10 þúsund manns og heildartala látinna komin vel á þriðja hundrað manns.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin WHO lýsti yfir neyðarástandi í heiminum vegna veirunnar s.l. fimmtudagskvöld. Skv. Reuters afráða Bandaríkin öllum að ferðast til Kína og Kínverjar senda nú flugvélar til að sækja landsmenn sem orðið hafa strandaglópar erlendis vegna lokunar á flugi margra alþjóða flugfélaga.

Fréttastofa Reuters hefur eftir heimildum hjá ítölsku ríkisstjórninni að lýst verði yfir neyðarástandi eftir að sýking fannst hjá tveimur kínverskum ferðamönnum í Róm. Í Rússlandi hafa tveir smitast og öllu flugi til Kína hefur verið aflýst nema hjá Aeroflot. TT segir að Finnair hafi aflýst öllu flugi til Kína frá og með 6. febrúar fram til 29. mars.

Sjá daglega uppfærslu á útbreiðslu veirunnar hér

Fylgjast má með útbreiðslu veirunnar á heimskorti John Hopkins háskólans hér

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila