Svíar í kórónustríði – áhlaup á matvörubúðir og apótek

Hillur matvælamarkaða standa tómar eftir áhlaup neytenda sem birgja sig upp fyrir kórónustríðið

Starfsmenn matvælamarkaða og flutningafyrirtækja hafa ekki undan að hlaða í hillurnar eftir áhlaup Svía á matvörubúðir í vikunni. Fréttaritari fór snemma s.l. föstudagsmorgun í einn stærsta matvælamarkaðinn í nágrenninu ICA Maxi Häggvik og þá var mjólkin búin og tveir eggjapakkar eftir.  Margar hillur blöstu við tómar en myndirnar hér tók vinur fréttaritara sem var í sömu búð nokkrum klukkustundum síðar og þá var bókstaflega búið að hreinsa burtu hrökkbrauð, þurrmat súpur og hrísgrjón, pasta og svo að sjálfsögðu klósettpappír.

Engan þarf að undra að ótti hafi slegið um sig meðal Svía við tilkynningu Lýðheilsunnar fyrir helgi sem sagði að í næstu viku verði hætt að taka kórónusýni í allri Svíþjóð nema þeim sem af eigin krafti til komast fram hjá lokuðu kerfinu alla leið að sjúkrahúsi og tekst að fá pláss þar.

Ástæðan fyrir þessari kínversku ákvörðun ríkistjórnar Svíþjóðar er sú að skortur er nú þegar á einföldum hlutum eins og öndunargrímum, handspritti, sótthreinsibúnaði o.þ.h. Fjölmiðlar greina frá örvæntingu starfsmanna sjúkrahúsa sem segja frá tilraunum til að kaupa inn slíkar vörur til sjúkrahúsanna en alls staðar er komið að lokuðum dyrum og því ekki einu sinni i hægt að fá einföldustu hluti sem notaðir eru daglega.


Ekki bætir úr skák þegar blöð eins og Expressen greinir frá skorti á lyfjum með efnum frá Kína eins og t.d. antibiotika en nær öll antibiotika er framleidd í Kína og er ekki fáanleg eins og er.


Sænska ríkisstjórnin hefur bókstaflega gefið fólkinu fingurinn og segir að það verði að klára sig sjálft. Þeir sem eru með einkenni eiga að setja sig í sóttkví heima og alls ekki hafa samband við heilsugæsluna nema að þeir séu við það að gefa upp andann. Skólum er haldið opnum í trássi við ráðleggingar prófessora og talsmaður Lýðheilsunnar Anders Tegnell rífur kjaft við aðrar þjóðir sem gera allt til að hjálpa íbúum sínum eins og Ítalir.

 Ítalski sendiherrann varð allra vinsamlegast að gefa út yfirlýsingu um samstarf þjóða í stað þess skítkasts sem yfirvöld Svíþjóðar ástunda. 
Allir vita að gjörgæslan hefur aðeins 500 rúm í öllu landinu og þau eru þegar mönnuð að miklum hluta vegna venjulegra þurfandi sjúklinga. Sjúkrahúsin a.m.k. á Stokkhólmssvæðinu eru þegar byrjuð að senda fólk heim, hætta við allar skurðaðgerðir sem hægt er að fresta og skera niður þjónustu við almenning.

Þegar kórónuáhlaupið kemur fyllast plássin fljótt og kínverskt ástand myndast með troðfullum göngum sjúkrahúsa og fólki sagt að fara heim vegna plássleysis. Talað er um að líklega verði að einangra höfuðborgarsvæðið. Engar upplýsingar fást lengur um raunverulegan fjölda smitaðra eða látinna heldur aðeins tölur yfir þá fáu heppnu sem fá pláss á sjúkrahúsum. 


Þar með tryggir kratastjórn Svíþjóðar heilsujafnrétti Svía og að kórónasýkin verði ”lagom” á pappírnum. 

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila