Súrrealískt ástand í Svíþjóð – ”þeir leiða okkur beint í stórslys”

Cecilia Söderberg-Nauclér læknir og prófessor við Karolinska

The Guardian skrifar um súrrealískt ástand í Svíþjóð þar sem kórónuveirunni hefur verið leyft að dreifa sér um allt samfélagið. Í viðtali við blaðið segir Cecilia Söderberg-Nauclér læknir og prófessor við stofnun Karolínska, að hún ásamt mörgum starfssystkinum krefjist þess að ríkisstjórnin opinberi gögn er liggja til grundvallar þess sem umheimurinn segir vera ”sænsku tilraunina”. 

Á meðan önnur lönd loka til að hefta útbreiðslu veirunnar fer Svíþjóð leið ”hjarðónæmis” sem felst í því að smit er látið dreifa sér um samfélagið til að byggja upp ”ónæmi” gegn veirunni. Engir vísindamenn fullyrða þó að slíkt sé gefin útkoma og hafa viðbrögð ríkisstjórnarinnar gegn veirunni vakið furðu margra og þá sérstaklega eftir að Bretar hurfu frá þessarri leið vegna þess að hún hefði þýtt umframdauða 250 þúsund manns (við ákjósanlegustu aðstæður).


Cecilia Söderberg-Nauclér segir: 

”Við greinum ekki nægjanlega marga, við rekjum ekki smit, við einangrum ekki nægjanlega mikið, – við höfum sleppt veirunni lausri. Það leiðir okkur beint í stórslys.” 

Bendir hún á að dánartíðni í Svíþjóð aukist hraðar en á Ítalíu miðað við sama tímapunkt útbreiðslunnar.

 ”Ríkisstjórnin virðist hafa ákveðið að láta fólk deyja þar sem þeir trúa ekki að þeir ráði við útbreiðslu veirunnar.”


14 sænskir smitsjúkdómasérfræðingar og vísindamenn kröfðust þess í grein í DN 24. mars s.l. að Lýðheilsan legði spilin á borðið og opinberaði hvaða reiknilíkön og aðferðir hún notaði gegn útbreiðslu veirunnar í Svíþjóð. Bentu þeir á breytta afstöðu Breta en Svíþjóð heldur áfram á þeirri braut sem Bretar hættu við. 


Að sögn Fria Tider höfðu yfir tvö þúsund sænskir vísindamenn m.a. prófessorar við stofnun Karolinska, Chalmers og háskólans í Gautaborg skrifað á mótmælalista til ríkisstjórnarinnar með kröfu um að fyrirmælum WHO verði fylgt og samskipti fólks verði stórlega og fljótt minnkað. 

Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til samskipta við Lýðheilsuna og að Cecilia Söderberg-Nauclér hafi verið lofað að koma á fund með Anders Tegnell fulltrúa Lýðheilsunnar til að ræða tölur sænskra vísindamanna, þá lögðu yfirvöld kalda hönd á málið. 

”Það var búið að lofa okkur daglegum fundum með Tegnell 16.-20. mars til að bera saman tölur Rocklövs og annarra stærðfræðinga en það varð ekkert af því. Tegnell skellti tólinu á mig 20. mars.”

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila