Ný frétt: Öflug sprenging skók hjarta Stokkhólmsborgar í nótt

Mjög öflug sprenging varð á Östermalm í Stokkhólmi aðfaranótt mánudags að sögn sænska útvarpsins. Stigahús fjölbýlishúss var „sundursprengt” og a.m.k. einn bíll á staðnum ónýtur og aðrir skemmdir vegna sprengingarinnar. Myndir sem bæði útvarpið og Aftonbladet og Expressen hafa birt sýna skemmdir á bílum. Óljóst er um slys á fólki.

 „Ég heyrði hvellinn og er í sjokki, þetta er hræðilegt“ sagði einn íbúinn í viðtali við sænska útvarpið.

Fyrsta samtalið til SOS kom kl 01.09 en skv. Aftonbladet bárust SOS 22 samtöl á tíu mínútum vegna sprengingarinnar.  Sprengingin var í hjarta Stokkhólms á Gyllenstiernsgötu í Östermalm hverfinu. Sprengingin var svo öflug að hún heyrðist bæði til Waxholm í austri og Nacka í suðri skv. Aftonbladet.

Mikill fjöldi lögreglumanna fóru á staðinn, hverfinu var lokað fyrir umferð og sprengjudeild lögreglunnar kölluð á staðinn. Fimm sjúkrabílar fóru á staðinn en ekki er enn vitað hvort einhverjir hafa slasast. Fjöldi íbúa vaknaði í hverfinu en sprengingin virðist hafa verið í bíl fyrir utan anddyri fjölbýlishús og sagði fréttaritari sænska útvarpsins að anddyri hússins væri stórskemmt.

Bílar á götunni fyrir utan færðust úr stað og skemmdust, rúður brotnuðu í nærliggjandi íbúðum að sögn vitna og gatan alþakin glerbrotum. Anddyri fjölbýlishússins virðist hafa sprungið út á götu.

„Hluti svalanna á húsinu eru horfnar. Hurðin hefur lent hinum meginn á götunni. Bílar hafa færst úr stað vegna höggsins og eru stórskemmdir“ segir einn íbúanna við Expressen.

Hvað það er sem hefur sprungið var ekki ljóst þegar þessi frétt er skrifuð. Það er of snemmt að segja hvort um glæpaverk eða slys er að ræða.

Lögreglan rýmdi íbúðir í tveimur nærliggjandi stigahúsum og talin er hætta á að hluti byggingarinnar geti hrunið í stighúsinu þar sem sprengingin varð.

Borgaryfirvöld Stokkhólms hafa opnað Gärdesskólann þangað sem íbúar eru fluttir sem þurfa á aðstoð og áfallahjálp að halda. 

Vitni lýsa hvernig svalir utan á húsinu hafa skemmst á nokkrum hæðum og rúður brotnað á a.m.k. fjórum hæðum. Eitt vitni lýsir sprengingunni sem „afar mikilli og að jörðin hafi nötrað.”  Í Nacka í suður Stokkhólmi tugi kílómetra frá staðnum vaknaði fólk við hvellinn: „Ég vaknaði við hvell og rúmið hristist. Það var óhuggulegt” skrifar einn íbúi í Nacka. Sjá nánar hér og hér og hér

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila