Svíar undirbúa kórónuáhlaup – Löfven talar til þjóðarinnar – herinn opnar sjúkrahús

Stefan Löfven forsætisráðherra Svíþjóðar

Svíar undirbúa sig nú fyrir harða baráttu gegn kórónufaraldrinum á stórborgarsvæðunum Stokkhólmi, Gautaborg og Malmö. Er búið að fresta öllum lækningum sem mega bíða til að skapa rými fyrir komandi áhlaup smitaðs fólks sem þarf á lækningu að halda. Herinn opnar hersjúkrahús í Uppsala og einnig verður sýningarhöll í Stokkhólmi, Älvsjömässan breytt í bráðabirgðasjúkrahús.


Stefan Löfven forsætisráðherra Svíþjóðar sagði í sjónvarpsávarpi til þjóðarinnar sunnudagskvöld að framundan væru miklar raunir fyrir Svía í baráttunni við kórónuveiruna.


”Lífi, heilsu og atvinnu er ógnað. Fleiri munu veikjast, fleiri munu neyðast til að kveðja ástvini hinstu kveðju. Eina leiðin fyrir okkur til að komast í gegnum vandann er að mæta honum sem eitt samfélag, þar sem allir bera ábyrgð á sjálfum sér, hvert öðru og fyrir land vort. Hvert og eitt okkar ber ábyrgð á að hindra smitdreifingu, að vernda eldri og aðra áhættuhópa. Ekkert okkar má taka áhættu. Ekkert okkar má mæta í vinnu með einkenni. Ungur, gamall, ríkur eða fátækur skiptir engu máli. Allir verða að leggja sitt af mörkum.” 

Frystigámum sem geta geymt lík hefur verið komið fyrir m.a. við Karolinska í suður Stokkhólmi og heilbrigðisyfirvöld hafa dreift fyrirmælum til sjúkrahúsa um viðbrögð við of miklu álagi og skorti á plássi á gjörgæsludeild. Fylgir ífyllt í blað hverjum sjúklingi með upplýsingum um aldur, aðra sjúkdóma og félagslegar aðstæður og verður til grundvallar ákvörðun um að taka á móti sjúklingum eða senda heim.

Í Gautaborg reiknar Sahlgrenska með áhlaupi kórónasjúklinga og hefur girðingum verið komið fyrir við útidyr og einungis ein þeirra notuð fyrir móttöku sjúklinga, sem þá þurfa fyrst að ganga í gegnum gám til að komast inn í sjúkrahúsið. Verða sjúklingar að hafa með sér sérstakt kall  frá sjúkrahúsinu til að eiga möguleika á að komast inn.Hermenn eru í viðbragðsstöðu í Stokkhólmi með sóttvarnargrímur í farangrinum tilbúnir í útkall með 6 tíma fyrirvara. M.a. er rætt um að herinn verði til taks ef grípa þurfi til þess neyðarúrræðis að setja Stokkhólmsborg í einangrun.

Deila