Svíþjóðardemókratar næst stærsti flokkur hjá fyrstu kynslóð innflytjenda í Svíþjóð

Í skoðanakönnun SVT kemur fram, að Svíþjóðardemókratar eru næst stærsti flokkurinn hjá fyrstu kynslóð innflytjenda. Á það einnig við um innflytjendur sem koma frá löndum utan Evrópu.

Kratar stærstir og Svíþjóðardemókratar næst stærstir hjá innflytjendum

Sænska sjónvarpið SVT hefur gert kjörstaðakannanir í öllum landskosningum í Svíþjóð síðan 1991. Niðurstaða kjörstaðakannana er almennt dæmigerð fyrir raunverulega og endanlega kosninganiðurstöðu – og tilgangurinn er að greina hvernig kjósendur kjósa og hvers vegna.

Í kjörstaðakönnun þessa árs, sem nú hefur verið birt í smáatriðum, má meðal annars sjá hvernig fólk kaus, sem ólst aðallega upp í öðru landi en Svíþjóð, þ.e.a.s. fyrsta kynslóð innflytjenda.

Eru lönd flokkuð í Norðurlönd utan Svíþjóðar, Evrópu utan Norðurlandanna og lönd utan Evrópu.

Samkvæmt kjörstaðakönnuninni eru jafnaðarmenn í fyrsta sæti með 33 %, 35 % og 45 % atkvæða í ofangreindum flokkum. Svíþjóðardemókratar fá sem svarar 22 %, 17 % og 14 % þessara atkvæða.

Svíþjóðardemókratar eru því næst stærsti flokkur fyrstu kynslóðar innflytjenda í öllum landsflokkum. Þegar allir landsflokkar fyrstu kynslóðar innflytjenda eru lagðir saman, þá eru Svíþjóðardemókratar næst stærsti flokkurinn með 16 % allra atkvæða. Meðal innflytjenda utan Evrópu eru Svíþjóðardemókratar stærri en Umhverfisflokkurinn, Miðflokkurinn og Frjálslyndir samanlagt.

Deila