Talsvert um slys við gosstöðvarnar í nótt

Þrír einstaklingar þurftu aðstoð björgunarfólks á gosstöðvunum í nótt eftir að hafa slasast á fótum, enda landslagið mjög gróft yfirferðar, en talsvert var af fólki við gosstöðvarnar í nótt. Lögregla segir of mikið um að fólk fari illa búið að gosstöðvunum og margir hverjir alls ekki í réttum skóbúnaði. Til að mynda fréttist að sést hefði til einstaklinga á sandölum og jafnvel inniskóm á svæðinu en vart þarf að taka fram að slíkur skóbúnaður hentar alls ekki til þess að ganga á úfnu hrauni eða í óbyggðum almennt.

Þá hefur lögregla ítrekað þurft að hafa afskipti af fólki sem hefur ætlað með ung börn á gosstöðvarnar. Rétt er að minna fólk á að gangan nú er mun lengri en að síðasta gosi, auk þess sem aðstæður nú eru allt aðrar og hættulegri. Því vill lögregla beina því til fólks að fara eftir þeim leiðbeiningum sem lögregla hefur sett gagnvart þeim sem hyggjast ganga að gosstöðvunum og helst ekki að vera koma á svæðið, því svæðið sé ekki öruggt, enn sé óljóst hvort fleiri gosop muni opnast og á meðan svo er þá getur lögregla ekki ábyrgst að vettvangurinn sé öruggur. Þá safnast hraun gjarnan í tjarnir sem geti rofnað hvar og hvenær sem er. Um helgina er spáð afleitu veðri á svæðinu og því ætti fólk ekki að leggja upp í ferðir þangað.

Deila