Tekist á um fjármál borgarinnar – Skuldir eðlilegar þegar verið er að byggja upp

Báknið hefur þanist of mikið út með tilheyrandi kostnaði án þess að skila bættri þjónustu til íbúa og skuldasöfnun borgarinnar er alltof mikil. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Ómars Más Jónssonar oddvita Miðflokksins í síðdegisútvarpinu í dag en hann var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur ásamt Heiðu Björgu Hilmisdóttur frambjóðanda Samfylkingarinnar í Reykjavík.

Ómar bendir á að kannanir til margra ára sem benda til þess að 40% íbúa borgarinnar séu ósáttir við þjónustuna hjá borginni og því sé hin meinta bætta þjónusta ekki að skila sér.

Segir eignir mun meiri umfram skuldir

Heiða segir það ekki rétt að fjármál borgarinnar séu í ólestri og segir að eignir borgarinnar séu mun meiri umfram skuldir. Hins vegar hafi verið ráðist í miklar fjárfestingar, til dæmis hafi verið fjárfest í íþróttaaðstöðu, skólum, leikskólum, íbúðakjörnum fyrir fatlað fólk.

„til dæmis höfum við nú þegar á þessu kjörtímabili opnað 11 búsetukjarna fyrir fatlað fólk og ráðið þar inn 450 manns, það kostar en þetta er auðvitað spurning hvort við viljum hafa borgina fyrir okkur öll? , já við viljum það“segir Heiða.

Fólki líður almennt vel en alltaf hægt að gera betur

Heiða segir að fólki líði almennt vel í borginni en það séu hópar sem þurfi að gera betur við og það sé verið að vinna í því að koma til móts við þá hópa.

„en að tala um að báknið og stjórnsýslan hafi blásið út þá er það þannig að okkur Reykvíkingum hefur fjölgað um 12.000 á skömmum tíma og það þarf að fjölga starfsfólki til þess að sinna þeim, það er bara þannig“segir Heiða.

140 fatlaðir einstaklingar bíða eftir félagslegum úrræðum

Ómar segir að hann hafi nýlega fundað með hópi sem beri heitið Átak, þar hafi hann hitt einstaklinga sem glíma við fötlun og þar eru 140 þeirra sem bíða eftir félagslegum úrræðum á vegnum borgarinnar sem þeir hafi ekki fengið og bendir Ómar á að það sé lögbundið hlutverk borgarinnar að sinna þessum hópi, það sé hins vegar ekki gert.

Fjárfest til hagsbóta fyrir borgarbúa

Heiða segir að þær fjárfestingar sem ráðist hefur verið í séu til þess að mæta þörfum borgarbúa og eru því þeim til hagsbóta, til dæmis hafi verið fjárfest með því að ráða fleiri leikskólakennara og betri starfsaðstæðum þeirra og að fleira mætti tína til. Hún segir skuldasöfnun borgarinnar í raun ekki vera mikla og borgin sé undir því skuldahlutfalli sem sett sé samkvæmt lögum þrátt fyrir að fjárfest hafi verið í dýrum innviðum fyrir borgarbúa.

„við eigum miklu meira en við skuldum og getum vel staðið undir öllum afborgunum og vel það“segir Heiða.

ESA hnippir í borgina

Þessu er Ómar ekki sammála og segir ekkert sveitarfélag hafa skuldsett íbúa sína jafn mikið og Reykjavíkurborg hafi gertEftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga.

„þegar Covid brast á þá var tekin athyglisverð ákvörðun um að sópa þessu skuldaviðmiði undir teppið, þannig að í dag er ekkert eftirlit með fjármálum sveitarfélaga, það hafa verið gerðar mjög alvarlegar athugasemdir við Reykjavíkurborg af ESA eftirlitsstofnun EFTA sem hefur eftirlit með sveitarfélögum í Evrópu, athugasemdirnar eru vegna þess að það er búið að blása út ársreikninga með einhverri eignastöðu í Félagsbústöðum, það er svona verið að reyna að mótmæla því af hálfu borgarinnar en þetta er auðvitað mjög alvarleg staða“ segir Ómar.

Heiða mótmælir því að gerðar hafi verið athugasemdir af hálfu ESA heldur hafi aðili á Íslandi sent athugasemdir til ESA sem síðan hafi sett sig í samband við borgina og Sveitarstjórnaráðuneytið þar sem ákveðnar spurningar voru bornar fram.

„þannig allt tal um athugasemdir af hálfu ESA eru ekki réttar, heldur senda þeir ráðuneytinu og borginni spurningu og í því felst engin athugasemd“segir Heiða.

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila