Telur að nýr meirihluti eigi erfitt með að sleppa Degi – Dagur er með sitt klapplið í ráðhúsinu

Það verður erfitt fyrir nýjan meirihluta að taka við keflinu í ráðhúsinu því Dagur er búinn að vera svo lengi við völd að þar hefur hann komið sér upp ákveðnu klappliði. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur lögmanns og fyrrverandi borgarfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina í síðdegisútvarpinu í dag en hún var gestur Magnúsar Þórs Hafsteinssonar.

Sveinbjörg bendir á að Dagur sé búinn að vera mjög lengi við völd í ráðhúsinu og því fylgi ákveðin vandamál fyrir þá sem ætli að taka við.

„allir embættismennirnir eru bara vanir því að svara til hans og ég þekki þetta hafandi verið í minnihluta að einu staðirnir sem þú getur fengið upplýsingar ef þær vantar er á fundum, en borgarstjóri hefur fullan aðgang að öllum upplýsingum allan sólarhringinn eins og Dagur er búinn að hafa, fyrir utan það að þá er náttúrulega mjög sterkt klapplið sem eru stuðningsmenn Dags innan borgarkerfisins, embættismannakerfisins, það er í raun hirðin hans Dags. Það væri dýrt að fara í skipulagsbreytingar til þess að segja fólki upp því að til þess að geta raunverulega stjórnað þá þarftu að hafa þitt lið með þér og það er ekki endilega það fólk sem situr núna í ráðhúsinu eða embættismannakerfinu“ segir Sveinbjörg.

Þannig segir Sveinbjörg gæti sá sem tæki við keflinu átt erfitt uppdráttar inna veggja ráðhússins

„en þetta er ekkert endilega neitt viljandi heldur er þetta bara eitthvað sem er meitlað í það DNA sem er í ráðhúsinu í dag“.

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

Deila