Telur viðskiptabannið gagnvart Rússum vera að virka

Viðskiptabannið gegn Rússum er að virka og er mikið högg fyrir þá og það má sjá á því að landsframleiðsla Rússa dregst saman um 10% á þessu ári. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Njáls Trausta Friðbertssonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins, varaformanns utanríkismálanefndar og formanns Íslandsdeildar NATO í síðdegisútvarpinu í dag en hann var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur og Péturs Gunnlaugssonar.

Njáll segir viðskiptabannið vera gríðarlegt fjárhagslegt högg og sé farið að hafa áhrif á herafla Rússa.

„við erum farnir að heyra af því að það sé verið til dæmis að taka í sundur vélar og heimilistæki til þess að komast þar í tölvukubba til þess að nota í vopnin þannig þetta er farið að bíta mjög mikið og á mörgum sviðum, það hefur verið þannig að eftir að kalda stríðinu lauk þá breyttust viðhorfin og allir héldu að allir í skóginum væru vinir og þess vegna fara menn að treysta á olíuna og gasið frá Rússlandi en svo erum við bara komin í allt annan leik“segir Njáll.

Hann segir sérstakt að upplifa hvernig allt breyttist á einni nóttu þegar ráðist var inn í Úkraínu.

„ég var þarna í höfuðstöðvum NATO á mánudegi áður en stríðið byrjaði, svo fór ég til Frakklands á miðvikudagskvöldi og þá um nóttina er ráðist inn í Úkraínu svo um morgunin mæti ég á fund um öryggis og varnarmál í Evrópu þar sem mjög fín kona sem var prófessor við Soho háskólann og hélt sinn fyrirlestur á því að segja: þið áttið ykkur á því að í nótt þá breyttist allt til næstu 20 til 30 ára, Evrópa breyttist í nótt“

Aðspurður um stækkun NATO og afstöðu Erdogan forseta Tyrklands til stækkunarinnar segir Njáll.

„ég á ekki von á að þetta verði vandamál með Erdogan og Tyrkina þó þeir vilji eitthvað í staðinn, þá held ég að stóra myndin muni ekki breytast en varðandi aðild Svía og Finna að þá held ég að það hafi heilmikið að segja fyrir Norðurlöndin og norðanverða Evrópu enda mjög öflugar þjóðir, hvað þá fyrir Norðmenn, Dani og eystrasaltið“ segir Njáll.

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

Deila