Tengdafaðir Unnar lést af völdum Covid – Var neitað um sýnatöku og gefin höfuðverkjatafla

Unnur Eggertsdóttir sem búsett er í Svíþjóð missti tengdaföður sinn í vor segir sig og fjölskyldu sína hafa upplifað undarleg viðbrögð heilbrigðisyfirvalda í Svíþjóð við því þegar tengdafaðir hennar veiktist af Covid-19. Þetta var meðal þess sem fram kom í þættinum Heimsmálin, fréttir og fréttatengt efni af erlendum vettvangi í dag en þar ræddi Pétur Gunnlaugsson við Gústaf Skúlason fréttaritara í Stokkhólmi en í þættinum var meðal annars viðtal Gústafs við Unni flutt.

Fram kom meðal annars í máli Unnar að öldruðum tengdaföður hennar hafi ekki verið sinnt sem skyldi á sjúkrahúsi í Svíþjóð og honum meðal annars gefið lyfið Alvedon við Covid en lyfi er gefið við höfuðverk en ekki veirusýkingum. Unnur sagði frá því að þegar tengdafaðir hennar veiktist hafi hann verið meðhöndlaður eins og um Covidsmitaðan einstakling að ræða en það hafi ekki verið staðfest með prófunum, þegar ættingjar mannsins báðu um að tekið yrði Covidpróf kom í ljós að ekki mætti taka slíkt próf af óljósum ástæðum.

Þá voru einu samskipti mannsins við ættingja á þessum tíma í gegnum síma og grét maðurinn af kvölum vegna veikindanna og var hann síðan settur í líknarmeðferð, án þess að hafa verið sjúkdómsgreindur, og ættingjum til mikillar undrunar var þá fyrst próf tekið til að staðfesta að veikindi mannsins væru af völdum Covid.

Unnur segir að fram hafi komið í umræðunni um aðgerðarleysi sænskra stjórnvalda að það væri engu líkara en að stjórnvöld hafi ákveðið að fórna velferð eldri borgara í Svíþjóð í skiptum fyrir að geta haft kaffihúsin opin og segir Unnur að ættingjar hafi farið fram á öll skjöl varðandi andlát mannsins til þess meðal annars að leggja mat á réttarstöðu fjölskyldunnar gagnvart yfirvöldum.

Hlusta má bæði á viðtalið við Unni og þáttinn í heild hér að neðan.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila