„Þið hafið með meðvitaðri stjórnmálastefnu skapað fjöldainnflutning sem hefur eyðilagt samfélagið“

Jimmy Åkesson formaður Svíþjóðardemókrata var harðorður í garð sænsku ríkisstjórnarinnar á kappræðufundi flokksformannanna í sænska sjónvarpinu í gærkvöldi.

Í gærkvöldi háðu formenn sænsku stjórnmálaflokkanna kappræður í sænska sjónvarpinu þar sem helstu mál samtímans í Svíþjóð voru rædd. Byrjað var á málefnum vinnumarkaðarins en umræður atvinnurekenda og verkalýðsfélaga um breytingu vinnulöggjafarinnar höfðu siglt í strand. Jonas Sjöstedt formaður Vinstri flokksins hafði eina ferðina enn hótað að sprengja ríkisstjórnarsamstarfið með því að leggja fram vantrauststillögu á þingi, sem formenn stjórnarandstöðunnar lýstu sig fylgjandi, en enginn trúði eiginlega á, að Sjöstedt myndi standa við þegar á hólminn var komið. Enda sýndi það sig enn á ný, að orð Sjöstedt voru innantóm og hann gaf ríkisstjórninni „lengri frest.“

Glæpamálin mál málanna

Lögleysan í Svíþóð með daglegum skotárásum og sprengingum sem líkist engu öðru landi á friðartímum hafa siglt upp á lista mikilvægustu málefna Svía undanfarin ár og eru nú nær jöfn heilsumálunum sem hafa verið í efsta sæti á undan innflytjendamálum. Kom það fram hjá fulltrúum flokkanna að þeir mátu að lög og regla væri eitt heitasta kosningamálið fyrir þingkosningarnar á næsta ári í Svíþjóð. Það var fáránlegt að horfa og hlýða á Stefan Löfven formann sósíaldemókrata og Ulf Kristersson formann Móderata takast á um ástandið. Engar staðreyndir bíta á sósíaldemókrata sem kenna Móderötum um allan fólksinnflutninginn og að sósíaldemókratar séu þeir sem séu að minnka innflutning fólks, þrátt fyrir að vera nýbúnir að samþykkja að auka innflutning fólks til Svíþjóðar.

Lausn jafnaðarmanna: tveggja hæða kojur í fangelsin

Öll fangelsi Svíþjóðar eru yfirfull, yfir 2700 dæmdir glæpamenn ganga lausir sem á að vera búið að setja í fangelsi fyrir löngu síðan. Formaður Kristdemókrata Ebba Busch Thor formaður Kristdemókrata sagði að Svíþjóð væri land biðraðanna, biðraðir í aðgerðir á sjúkrahúsum, biðraðir til að komast í húsnæði og núna hefur einn málaflokkurinn bæst við: biðraðir til að komast í steininn. Stefan Löfven hafði svar á reiðum höndum um hversu hugmyndaríkir sósíaldemókratar væru: Setja tveggja hæða kojur í fangelsin til að leysa málið.

Glæpamennskan er afleiðing rangrar stefnu yfirvalda í innflutningsmálum

Jimmy Åkesson formaður Svíþjóðardemókrata var eiginlega sá eini sem vék beint að kjarna vandans með skarpri skilgreiningu á orsökum vaxandi glæpamennsku sem tröllríður allri Svíþjóð og ógnar öllu samfélaginu í dag: „Ég held ekki að það sé nein skyndilausn til því miður á aðskilnaði þjóðfélagshópa í Svíþjóð. Bæði hægri og vinstri stjórnir hafa leyft aðskilnaði þjóðfélagshópa að vaxa í áratugi og það hefur sundrað og eyðilagt landið okkar. Fullkomlega eyðilagt landið með enn meiri aðskilnaði og fullkomlega misheppnaðri innflytjendastefnu. Eina leiðin til að leysa málið er að stöðva frekari fólksinnflutning, byrja að endurreisa samstarf og samheldni í samfélaginu, gera kröfur til þess fólks sem kemur hingað: Ef þið viljið búa hjá okkur og vera áfram, þá verðið þið að aðlaga ykkur að því hvernig við lifum í landinu okkar, ekki fremja glæpi, því ef þið gerist brotleg, þá farið þið út. Við munum sjá til þess að hættulegir einstaklingar í þessum hverfum verði settir á bak við lás og slá og þegar þeir hafa afplánað dóma, þá verði þeir endursendir til síns heima, þeir sem ekki eru sænskir ríkisborgarar.“

Sérstöku „útsettu“ svæðin hafa ekki sprottið upp af sjálfu sér

„Það er einmitt sú barnalega afstaða sem snýr blinda auganu að veruleikanum sem hefur skapað aðskilnaðinn og þá sem eru utan við samfélagið. Sérstöku svæðin hafa ekki sprottið af sjálfu sér eins og sveppir úr jörðu, þetta er meðvituð stjórnmálastefna, þið hafið drifið stefnu fjöldainnflutnings sem hefur skipt þjóðfélaginu og brotið það niður. Mér er með öllu óskiljanlegt að nokkur kjósandi í landinu beri lengur traust til þeirra sem skapað hafa þessi vandamál hjá okkur,“ sagði Jimmy að lokum.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila