
Stríðið í Úkraínu gæti leitt til verstu hungursneyðar sem heimurinn hefur séð eftir seinni heimsstyrjöld
„Stríðið í Úkraínu gæti leitt til verstu hungursneyðar sem heimurinn hefur séð frá seinni heimsstyrjöldinni og drepið milljónir manns“ að sögn Svenja Schulze, þróunarmálaráðherra Þýskalands í samtali við Bild.
Úkraína hefur verið kölluð „kornhlaða Evrópu“ og þetta frjósama land flytur mikið magn af uppskerunni til umheimsins.
En stríðið hefur stöðvað mikið af þessum útflutningi. Í lok síðustu viku tilkynnti matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna að 44 milljónir manna í þriðja heiminum ættu á hættu að svelta, vegna þess að þeir fá ekki lengur sinn hlut af úkraínsku korni.
Þróunarmálaráðherra Þýskalands, Svenja Schulze, varar við því að við séum á leið í alþjóða hungurkreppu. Hún segir í viðtali við Bild:
„Ástandið er mjög dramatískt. Vegna kórónufaraldursins, mikilla þurrka og núna einnig stríðsins hefur matvælaverð á heimsvísu hækkað um þriðjung og er nú í methæðum. Alþjóðamatvælaáætlunin áætlar núna, að að minnsta kosti 300 milljónir manna muni þjást af bráðu hungri og spárnar eru stöðugt færðar upp á við. Bitru skilaboðin eru þau, að við stöndum frammi fyrir verstu hungursneyð frá seinni heimsstyrjöldinni, með milljónum látinna.“
Ráðherra jafnaðarmanna viðurkennir í viðtalinu að loftslagshugmyndir í löndum eins og Þýskalandi geti aukið á vandann. Í Þýskalandi eru 4,4 % af svokölluðu lífeldsneyti framleitt úr hveiti, pálmaolíu, repju, maís og svipuðum matvælum. Svenja Schulze segir við Bild:
„Það hlutfall ætti að lækka niður í núll – ekki bara í Þýskalandi heldur einnig á alþjóðavettvangi í þeim mæli sem hægt er. Í Þýskalandi setjum við árlega 2,7 milljarða lítra af eldsneyti úr jurtaolíu á bílana okkar. Þetta samsvarar tæplega helmingi af uppskeru Úkraínu af sólblómaolíu.“