Þrjár sprengjuárásir á rúmum hálftíma í Malmö í nótt – einhverjir særðust – fólk flutt frá heimilum

Íbúar voru fluttir burt frá heimilum sínum á meðan lögreglan leitaði að fjórðu sprengjunni á svæðinu. Farið með einn á sjúkrahús og kraftaverk eins og venjulega að enginn dó svo vitað sé.

Styrjöld glæpahópa heldur óbrotið áfram af fullum krafti í Svíþjóð. Í þetta sinn – eins og svo oft áður, sprungu þrjár sprengjur á þremur mismunandi stöðum í sama hverfinu í Malmö á innan við hálftíma í nótt. Farið var með einn íbúa á sjúkrahús en rýma þurfti 8-9 hæða fjölbýlishús á Nydalavägen en sprengja sprakk þar á fimmtu eða sjöttu hæð.

Útidyrahurðin horfin ásamt hluta steyptra veggja í anddyrinu á Docentgatan

Fyrsta kallið kom til lögreglunnar korter í þrjú í nótt um sprengjuódæði á Docentgatan en þar sprakk sprengja við útidyr fjölbýlishúss. Urðu töluverðar skemmdir á anddyri hússins og rúður brotnuðu í húsinu. Íbúar voru fluttir burt og lögreglan lokaði af svæðinu á meðan sprengjudeildin leitar, hvort fleiri sprengjur geta verið á staðnum eða í grenndinni..

Um þrjú leytið kom svo kall um sprengingu á 5. eða 6. hæð í 8-9 hæða fjölbýlishúsi á Nydalavägen. Voru íbúar hússins fluttir á annan stað og svæðið allt afgirt. Mikael Lindh lögregluvarðstjóri sagði við Sydsvenskan að “Við vitum um að farið var með einn einstakling á sjúkrahús til rannsóknar.“

Þriðja kallið kom svo 03.18 um sprengingu við búð á Sörbäcksgatan en ekki vitað enn um hversu mikið tjón varð þar. Lögreglan gengur út frá því að samband sé á milli sprengjuódæðanna, þar sem þær voru allar framdar í sama hverfi með stuttu millibili. Enginn hefur verið handtekinn vegna málsins og mun lögreglan nota daginn í dag til að rannsaka hvað það var sem sprengt var og yfirheyra vitni.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila