„Þú ert rotta!” – Á annað hundrað þúsund mótmæltu Lúkasjenkó á götum Minsk í gær – Lögreglan gefur sig á konur – mörg hundruð handteknir

Gríðarlegur mannfjöldi mótmælti í Minsk í gær.

Þrátt fyrir tilraunir lögreglu og hers til að stöðva mótmælin í Hvíta-Rússlandi halda þau áfram af fullum krafti. Lögreglan kom fyrir vegatálmum og lokaði leiðum að miðborg Minsk um helgina og beitti vatnsbyssum og skaut gúmmíkúlum á fólk. Að sögn rússnesku fréttastofunnar Interfax skaut lögreglan skörpum viðvörunarskotum, þegar stór hópur mótmælenda þrammaði inn í hverfið þar sem stjórnmálaelíta Hvíta-Rússlands og nánustu starfsmenn Lúkasjenkó búa. Innanríkisráðuneytið neitar að skotið hafið verið viðvörunarskotum. Þrátt fyrir þetta tókst mótmælendum í gær sunnudag að safnast til einnar stærstu mótmælagöngu sem sést hefur í borginni eftir kosningarnar 9. ágúst s.l. Kölluðu mótmælendur „Lengi lifi Belarus” og „Þú ert rotta” sem er sérstök kveðja almennings til Lúkasjenkó og eitt af vinsælustu slagorðunum í Minsk.

Margar konur mótmæltu og voru handteknar í gær. Tókst sumum þeirra að rífa niður grímur lögreglumanna.

Eftir alla gagnrýni um beitingu ofbeldis skapaðist nokkurs konar friðhelgi um tíma að hreyfa ekki við konum og lögreglan lét þær afskiptalausar í mótmælunum. Núna hefur sú óskráða regla verið brotin og margar konur voru handteknar í gær eftir að sumar þeirra reyndu að taka grímur af andlitum lögreglumanna að sögn Elin Jönsson fréttaritara sænska sjónvarpsins. Segja konur í Hvíta-Rússlandi að mennirnir sem starfa hjá lögreglunni feli andlitin því þeir „séu skræfur sem þora ekki sýna hverjir þeir eru og að þeir skammist sín fyrir að vinna fyrir Lúkasjenkó.”

Tveir menn eru í felum á lóð sænska sendiráðsins eftir að þeim tókst að flýja undan lögreglunni. Hafa þeir sótt um hæli í Svíþjóð sem pólitískir flóttamenn en sendiráðið neitar því á þeirri forsendu að „senda þurfi skriflega umsókn til yfirvalda innflytjendamála í Svíþjóð.” Sænska sendiráðið leyfir þeim samt að vera á lóðinni og ekki er vitað hversu lengi það ástand varir.

5 mínútna réttarhöld yfir mótmælendum á netinu

Að sögn yfirvalda eru réttarhöld haldin yfir handteknum mótmælendum á netinu vegna kórónufaraldursins og fara þau fram á aðeins 5 mínútum að sögn sænska sjónvarpsins. Dómarinn sér ekki hverja hann dæmir og eru mótmælendur þvingaðir að skrifa undir „játningu” og sagðir hafa verið á allt öðrum stað og tíma en þeir voru í raunveruleikanu. Eru allt að 50 fangar settir í klefa fyrir hámark 10 manns og flestir fá um tveggja vikna fangelsi fyrir að taka þátt í friðsömum mótmælum gegn Lúkasjenkó.

Mótmælin koma degi áður en Lúkasjenkó hittir Pútín en þeir halda fund mánudaginn 14. september um framhald mála í Hvíta-Rússlandi. Rússland sem er sögulegur bakhjarl Hvíta-Rússland hefur stóraukið aðstoð við landið og boðið endurskipulagningu ríkisskulda og lausafjárstöðu bankakerfisins. Sérþjálfaðar rússneskar sveitir eru einnig til taks ef þörf krefur. TASS fréttastofan segir að varnamálaráðuneyti Rússlands hafi lýst því yfir í gær að fallhlífarhermenn frá Pskov sérdeildinni verði sendir til sameiginlegra heræfinga í Hvíta-Rússlandi sem hefjast í dag og lýkur 25. september.

Mótmælendur vonast til að staða Lúkasjenkó veikist fyrir fund hans með Pútín í dag

Ríkisfjölmiðlar í Rússlandi og Hvíta-Rússlandi segja að mótmælin séu skipulögð af erlendum öflum í Vestur-Evrópu og að fólk fái greiðslur til að fara út á götur og mótmæla. Mótmælendur lýsa hins vegar yfir miklum vonbrigðum með afstöðuleysi ESB og ríkisstjórna Vesturlanda sem einungis senda yfirlýsingar um „að þau fylgjast áhyggjufull með þróuninni” þrátt fyrir vitnisburð um ofbeldi og pyndingar. Segir sænska sjónvarpið að fólk sé ekki bara handtekið í sjálfum mótmælagöngunum heldur einnig í daglegu lífi t.d. á leið heim og frá vinnu eða í búðarferð eftir mjólk.

Mótmælendur vonast til þess að stærð mótmælanna slái gegn stöðu Lúkasjenkó í samningaviðræðunum við Pútín og að það geri Pútín erfiðara um vik að styðja Lúkasjenkó opinberlega. Mótmælendur segjast reiðubúnir til að ræða beint við Lúkasjenkó en hann hunsi þá og tali við Pútín í staðinn. Lúkasjenkó hefur lýst yfir að „hann hafi ef til vill verið nógu lengi við völd” en fáir búast við því að hann flýti sér neitt að fara frá völdum. Einn mótmælenda sagði: „Við verðum að sýna það með göngu okkar að Lúkasjenkó hefur glatað stjórninni á landinu og hann sé ekki í þeirri stöðu að mark verði á honum tekið sem fulltrúa fyrir íbúa Hvíta-Rússlands.”

Sjá nánar hér

Mikill kraftur í mótmælunum í Minsk, hér er lag rússnesku stórstjörnunnar Victor Tsoy „Hochu Peremen” sungið.

Athugasemdir

athugasemdir

Deila