Trump tilnefnir Amy Coney Barret til dómara Hæstaréttar Bandaríkjanna

Á leið í rósagarð Hvíta hússins, þar sem Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti tilnefningu Amy Coney Barret til dómara í Hæstarétti Bandaríkjanna.

Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti tilnefningu Amy Coney Barret til dómara í Hæstarétti Bandaríkjanna eftir andlát Ruth Bader Ginsburg í síðustu viku. Samþykkir Bandaríkjaþing tilnefninguna hafa Repúblikanar tryggt sér meirihluta dómaranna níu í hlutfallinu 6:3 en höfðu áður 5 dómara og Demókratar 4. Dómarar Hæstaréttar Bandaríkjanna sitja ævilangt, Coney Barrett er 48 ára gömul.

Barret er fyrrum lagaprófessor og starfar í dag sem dómari. Hún er móðir sjö barna og eru tvö þeirra aðtökubörn frá Haiti. Hún er kaþólsk og sögð fylgja bókstaf stjórnarskrár Bandaríkjanna.

Í ræðu sinni þakkaði forsetinn Ruth Bader Ginsburg fyrir dómarastörf í Hæstarétti og sagði Ginsburg hafa verið lögfræðilegan risa og brautryðjanda í kvennamálum. Síðan kynnti hann Amy Coney Barrett sem tilnefningu Repúblikana á nýjum dómara Hæstaréttar.

„Í dag hef ég þann heiður að tilnefna einn skærasta og gáfaðasta lögfræðing þjóðarinnar til Hæstaréttar. Kona með einstæða afrekaskrá, hátt gáfnafar, einstök meðmæli og órjúfanlega tryggð við stjórnarskrána: Amy Coney Barrett dómara.“

Forsetinn rakti feril Barrets frá námsárum með einstökum árangri til kennslustarfa og yfir í dómarastörf. Forsetinn nefndi börn Barrets öll með nöfnum og þakkaði þeim fyrir að deila frábærri móður sinni með bandarísku þjóðinni.

Amy Barret sagði í ræðu sinni „Það er mér mikill heiður að finna það traust sem forsetinn ber til mín. Ég er þér mjög þakklát og einnig forsetafrúnni, varaforsetanum og konu hans og svo mörgum öðrum viðstöddum fyrir velvilja ykkar á þessarri mikilvægu stundu. Ég skil til fullnustu að þetta er mikilvæg ákvörðun fyrir forsetann. Ef þingið sýnir mér þann heiður að staðfesta mig sem dómara, þá lofa ég að framfylgja verkinu af ábyrgð og eftir bestu getu. Ég elska Bandaríkin, ég elska stjórnarskrá Bandaríkjanna. Ég stend auðmjúk frammi fyrir verkefninu að þjóna Hæstarétti.“

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila