Tveimur sérfræðilæknum falið að rannsaka hvort fjögur andlát tengist bólusetningum gegn covid-19

Embætti landlæknis, sóttvarnalæknir og Lyfjastofnun hafa sammælst um að tveimur sérfræðilæknum verði falið að rannsaka hvort andlát fjögurra aldraðra einstaklinga megi rekja til bólusetningar gegn covid-19 sem einstaklingarnir höfðu undirgengnist skömmu fyrir andlátið.

Þetta kemur fram í sameiginlegri tilkynningu embættanna. Í tilkynningunni segir meðal annars að í ljósi þess að um nýtt bóluefni sé að ræða hafi landlæknir, sóttvarnalæknir og forstjóri Lyfjastofnunar ákveðið að fá óháða aðila til að fara gaumgæfilega yfir þessi fjögur andlát auk eins annars tilviks sem metið er alvarlegt og hafði verið tilkynnt sem hugsanleg aukaverkun.

Tilgangur rannsóknarinnar er að meta hvort líklegt sé að þessi alvarlegu atvik tengist bólusetningunni eða hvort þau tengist undirliggjandi sjúkdómum.

Í yfirlýsingunni segir einnig að jafnframt hafi verið kallað eftir upplýsingum frá Norðurlöndunum og frá Lyfjastofnun Evrópu um hvort sjá megi aukna tíðni dauðsfalla hjá eldri einstaklingum sem hafa verið bólusettir í öðrum Evrópulöndum undanfarna daga og vikur. Þá fer fram sérstök tölfræðigreining á dauðsföllum í þessum hópi á vegum embættis landlæknis.

Athugasemdir

athugasemdir

Deila