Úkraínustjórn ævareið yfir nýrri Amnesty skýrslu sem sakar Úkraínuher um að nota óbreytta landsmenn sem herskjöld

Amnesty International segir úkraínskar hersveitir meðvitað gera eigin óbreytta landsmenn að skotmörkum með því að setja upp bækistöðvar og nota vopnakerfi í fjölmennum íbúðahverfum. Meðal annars er herbækistöðvum komið fyrir í skólum og sjúkrahúsum samkvæmt nýrri skýrslu Amnesty. Stjórnvöld í Kænugarði sjá og segja Amnesty koma með Rússaáróður.

Úkraínski herinn brýtur meðvitað stríðslög

Rannsakendur Amnesty International eyddu nokkrum vikum á tímabilinu apríl-júní í Kharkiv, Donbass og Mykolaiv héruðum til að rannsaka árásir Rússa.

Við þessar rannsóknir fundu samtökin hins vegar vísbendingar um, að úkraínskar hersveitir stofnuðu lífum óbreyttra borgara í hættu með því að koma upp bækistöðvum í borgaralegum byggingum í 19 bæjum og þorpum. Einnig hefur Úkraínuher skotið frá fjölmennum íbúðahverfum. Að sögn Amnesty eru byggingarnar m.a. skólar og sjúkrahús.

Amnesty skrifar, að árásir Rússa, sem beinast að byggðum svæðum þar sem herstöðvum hefur verið komið fyrir, hafa bæði kostað óbreytta borgara lífið og eyðilagt borgaralega innviði. Agnès Callamard, framkvæmdastjóri Amnesty, segir í fréttatilkynningu:

„Við höfum skráð mynstur sem sýnir, að úkraínskar hersveitir stofna lífum óbreyttra borgara í hættu og brjóta stríðslög með því að vera með heraðgerðir í þéttbýli. Sú staðreynd, að úkraínski herinn er í varnarstöðu, leysir hann ekki undan þeirri skyldu að virða stríðslög.“

„Með því að breyta óbreyttum byggingum í hernaðarleg skotmörk, þá brjóta aðgerðir úkraínsku hersveitanna alþjóðalög og ógna öryggi óbreyttra borgara.“.

Úkraínustjórn segir skýrsluna falsfréttir Rússa og algjör öfugmæli

Skýrslan hefur vakið heiftarleg viðbrögð úkraínskra stjórnvalda. Oleksiy Reznikov, varnarmálaráðherra, kallar skýrsluna „öfugmæli“ að sögn The Guardian. Mychajlo Podoljak, ráðgjafi Volodymyr Zelenskyi forseta, sakar Amnesty um að taka þátt í rússneskri áróðursherferð gegn Úkraínu. Hann tístir:

„Það er skömm fyrir samtök eins og Amnesty að taka þátt í slíkri falsfrétta- og áróðursherferð.“

Samkvæmt upplýsingum frá Amnesty eru flest íbúðahverfin þar sem úkraínskir ​​hermenn dvöldu marga kílómetra frá víglínunni. Samtökin skrifa:

„Þannig hafa verið til staðar aðrar hernaðaraðferðir sem hefðu ekki stofnað lífi óbreyttra borgara í hættu – eins og herstöðvar eða þétt skógarsvæði í nágrenninu eða aðrar byggingar lengra frá íbúðahverfum. Í þeim málum sem Amnesty hefur skjalfest hefur ekki komið í ljós, að úkraínski herinn, sem dvaldi í óbreyttum byggingum í íbúðarhverfum, hefði hvatt eða aðstoðað óbreytta borgara við að rýma nærliggjandi byggingar. Þannig hefur Úkraínu mistekist að gera allar nauðsynlegar varúðarráðstafanir til að vernda líf óbreytta borgara.“

Agnès Callamard framkvæmdastjóri Amnesty skrifar:

„Úkraínsk stjórnvöld ættu þegar í stað að sjá til þess, að hersveitir þeirra séu staðsettar utan byggðra svæða eða flytja óbreytta borgara burtu frá þeim svæðum, þar sem herinn er með aðgerðir. Hermenn eiga aldrei að nota sjúkrahús til að taka þátt í bardaga og ættu aðeins að nota skóla eða óbreytt húsnæði, sem síðasta úrræði þegar engir aðrir raunhæfir kostir finnast.“

Deila