Umfangsmiklar lögregluaðgerðir í Hafnarfirði

Lögreglan á Höfuðborgarsvæðinu ásamt sérsveit ríkislögreglustjóra eru með mikinn viðbúnað nálægt Miðvangi í Hafnarfirði og má sjá þungvopnaða sérsveitarmenn athafna sig á svæðinu og ljóst að um mjög umfangsmikla aðgerð er að ræða.

Samkvæmt upplýsingum var skotið á bifreið sem stóð fyrir utan fjölbýlishús á svæðinu og hefur lögregla sett sig í samband við einn íbúa hússins, en talið er að íbúinn sé sá sem skaut á bifreiðina. Verið er að taka skýrslu af eiganda bifreiðarinnar en ekki hafa borist upplýsingar um hvort hann var inni í bifreiðinni þegar skotið var á hana. Lögreglan hefur sent frá sér tilkynningu vegna málsins en þar segir:

„Á áttunda tímanum í morgun var tilkynnt um skothvelli við fjölbýlishús á Miðvangi í Hafnarfirði, en grunur leikur á að íbúi í húsinu hafi skotið á kyrrstæða bifreið sunnan megin við fjölbýlishúsið. Þar eru bifreiðastæði, en gegnt húsinu er leikskóli. Aðgerðir lögreglu á vettvangi standa enn yfir, en starfsfólki og börnum á leikskólanum hefur verið gert að halda sig innandyra á meðan á þeim stendur og þá hefur verið lokað fyrir alla umferð um hluta Miðvangs. Engan sakaði í morgun, en ljóst er að mikil hætta var á ferð og var sérsveit ríkislögreglustjóra strax kölluð til vegna alvarleika málsins.Engar frekari upplýsingar er hægt að veita að  svo stöddu.“

Deila