Unga fólkið krefst aðgerða í atvinnumálum

Samtök ungs fólks innan ASÍ (ASÍ-UNG), Landssamtök íslenskra stúdenta (LÍS) og ungliðahreyfingar nokkurra stjórnmálaflokka hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem stjórnvöld eru krafin um aðgerðir til þess að sporna við atvinnuleysi ungs fólks.

Fram kemur í yfirlýsingunni að nær helmingur atvinnulausra í landinu sé ungt fólk á aldrinum 18 til 35 ára samkvæmt nýjustu tölum Vinnumálastofnunar.

Hópurinn segir stöðuna kalla á tafarlausar aðgerðir yfirvalda og bendir á að ungt fólk vilja vinna en fá ekki vinnu. Ungt fólk sé að jafnaði verr varið fyrir efnahagslegum áföllum en aðrir aldurshópar þar sem það stendur veikar á vinnumarkaði, á minni eignir en eldri hópar, og þurfi gjarnan að vinna með námi, sjá fyrir börnum og þar fram eftir götunum.

Í yfirlýsingunni eru stjórnvöld hvött til þess að styðja við atvinnulausa og fjölga störfum

Við köllum eftir því að forystufólk ríkisstjórnarinnar og allra stjórnmálaflokka setji fram ítarlega áætlun um það hvernig megi ná niður atvinnuleysi og fjölga störfum. Í ljósi stöðunnar í hagkerfinu er þetta eitt allra stærsta einstaka hagsmunamál ungs fólks á Íslandi

Þá segir jafnframt:

Við köllum eftir því að forystufólk ríkisstjórnarinnar og allra stjórnmálaflokka létti enn frekar undir með atvinnulausum og fjölskyldum þeirra. Það er réttlætismál og snýst um samstöðu með þeim sem bera þyngstar byrðar í yfirstandandi efnahagsþrengingum

Með þessari sameiginlegu yfirlýsingu viljum við undirrituð skora á ríkisstjórn Íslands og þingheim allan að taka höndum saman um að bregðast við vanda ungs fólks á vinnumarkaði af þeirri áræðni og festu sem til þarf. Þá hvetjum við fjölmiðla til að halda því vel til haga að nær helmingur atvinnulausra á Íslandi sé ungt fólk á aldrinum 18 til 35 ára – og það í alvarlegustu atvinnukreppu hér á landi frá upphafi mælinga.”


Gundega Jaunlinina, formaður Samtaka ungs fólks innan ASÍ (ASÍ-UNG)

Jóhanna Ásgeirsdóttir, forseti Landssamtaka íslenskra stúdenta (LÍS)

Ólafur Hrafn Halldórsson, formaður Ungra Pírata (UP)

Ragna Sigurðardóttir, forseti Ungra jafnaðarmanna (UJ)

Sanna Magdalena Mörtudóttir, fyrir hönd Ungra sósíalista

Starri Reynisson, formaður Uppreisnar

Athugasemdir

athugasemdir

Deila