Ungi jafnaðarmenn segja sóttvarnir í uppnámi vegna ábyrgðarleysis stjórnvalda – Kalla eftir starfsstjórn

Ungir jafnaðarmenn krefjast þess að lausatökum stjórnarflokkanna í sóttvarnamálum linni og að Alþingi komi saman án tafar svo renna megi skýrum lagastoðum undir nauðsynlegar sóttvarnir á landamærunum. Þetta kemur fram sem Ungir jafnaðarmenn hafa sent frá sér af tilefni þeirrar stöðu sem upp er komin í sóttvarnarmálum.

Í ályktuninni segir meðal annars:

Undanfarin misseri hafa vinnubrögð ríkisstjórnarinnar einkennst af hringli, flumbrugangi og samráðsleysi við sóttvarnayfirvöld. Þetta hefur sett sóttvarnir í uppnám og grafið undan sátt og samstöðu í samfélaginu. Alvarlegasta dæmið er nýlegur dómur Héraðsdóms Reykjavíkur um ólögmæta skyldudvöl í sóttvarnahúsi. Dómurinn og afleiðingar hans skrifast alfarið á ríkisstjórnina, ráðherra heilbrigðismála og tregðu stjórnarmeirihlutans á Alþingi til að axla pólitíska ábyrgð á sóttvarnaráðstöfunum og binda nauðsynlegar valdheimildir í lög þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar stjórnarandstöðu.

Þá kalla Ungir jafnaðarmenn eftir því að starfsstjórn verði mynduð sem myndi starfa fram að næstu kosningum:

Ungir jafnaðarmenn ítreka ákall sitt frá því í desember um að mynduð verði starfsstjórn ábyrgari stjórnmálaflokka fram að næstu Alþingiskosningum um stærstu hagsmunamál þjóðarinnar á þessum örlagatímum: öflugar sóttvarnir, öflun bóluefna og markvissari stuðning við atvinnuleitendur og þær atvinnugreinar sem hafa orðið verst úti í heimsfaraldrinum.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila