Unglingar í Vogaskóla taka þátt í tilraunum með seinkaða skólabyrjun

Nemendur á unglingastigi í Vogaskóla munu mæta seinna á morgnana í skólann næsta vetur en verið hefur hingað til. Um er að ræða tilraunaverkefni þar sem skoðað verður hvaða áhrif seinkun skólabyrjunar hefur á svefn, líðan og nám nemenda.

Rannsóknir sýna að 50% nemenda í 10. bekk og 70% framhaldsskólanema fá ekki nægan nætursvefn, það er sjö klukkustundir eða minna. Svefnskortur hefur mikil og slæm áhrif á fólk og má nefna að börn og unglingar sem sofa of stutt eiga erfiðara með einbeitingu, glíma frekar við minnistruflanir, depurð og kvíða, ná sér frekar í pestir, hreyfa sig minna, eru frekar í ofþyngd og sýna aukna áhættuhegðun. 90% unglinga sem segjast alltaf fá nægan nætursvefn telja sig við góða andlega og líkamlega heilsu en aðeins 50% þeirra sem aldrei fá góðan nætursvefn telja líkamlega heilsu sína góða og 35% meta andlega heilsu sína góða. Þetta kemur fram í gögnum frá Betri svefni, sem stendur að tilraunaverkefninu í Vogaskóla, ásamt Embætti landlæknis og Reykjavíkurborg.

Markmið verkefnisins er að skoða áhrif þess að seinka skólabyrjun og hafa markvissa fræðslu um svefn. Vogaskóli mun einn seinka skólabyrjun nú í haust en aðrir skólar verða notaðir til samanburðar. Spurningalistar verða lagðir fyrir í september og janúar til að skoða svefn og vellíðan og verður svefn unglinganna mældur með hreyfiúrum á tveimur tímabilum, í október og mars. 

Verkefnið spennandi

Snædís Valsdóttir skólastjóri Vogaskóla segist spennt fyrir verkefninu og segir það þess virði að prófa.

„Þetta snýst um að rannsaka hvaða áhrif seinkun skólabyrjunar hefur á svefn og hvaða áhrif vonandi aukinn og bættur svefn hefur á líðan og nám, okkur fannst áhugavert að kanna hvort þetta gæti orðið okkar unglingum til hagsbóta. Þetta er náttúrulega bara tilraunaverkefni til eins árs og það er alltaf hægt að snúa til baka ef svo ber undir. En það er líka þannig að ef aldrei er farið af stað með rannsóknir þá öðlumst við ekki nýja þekkingu“

Svona verður fyrirkomulagið

Kennsla í unglingadeild, það er 8.-10. bekk, hefur undanfarin ár hafist klukkan 8.30 í Vogaskóla en mun hefjast klukkan 9.10 í vetur og er því seinkað um eina kennslustund. Verkefnið leggst vel í starfsfólk unglingadeildarinnar.

„Fólk hefur auðvitað mismunandi skoðanir á þessu, bæði börn og foreldrar, en flestir fagna þessu. Mörgum finnst þetta spennandi tilraun en öðrum finnst þetta vitleysa, en þannig er það með allt. Það er ekki langt síðan við færðum skólabyrjun frá 8.10 til 8.30, þar sem okkur fannst of mikið stress að ætla börnunum að mæta tíu mínútur yfir átta.. Ég held að enginn vilji snúa til baka núna, en það þarf oft smá aðlögunartíma,“ útskýrir Snædís.

Deila