Upp eins og sólin – niður eins og pönnukaka – gærdagurinn sögulegur í sænskum stjórnmálum

Fyrsta konan í embætti forsætisráðherra stoppaði stutt: Sjö tímum eftir að Magdalena Andersson tók á móti hyllningslófaklappi sænska þingsins sem fyrst kjörna konan í embætti forsætisráðherra Svíþjóðar, þá fór hún á fund Talmannsins, forseta þingsins og baðst lausnar. Umhverfisflokkurinn hafði farið í fýlu og hoppað af ríkisstjórninni. Núna vonast Magdalena til að hún verði forsætisráðherra nýrrar eins flokks ríkisstjórnar sósíaldemókrata. (Sksk sænska sjónvarpið).

Aðeins eitt atkvæði skilur á milli hægri og vinstri á sænska þinginu

Sænsku stjórnmálin buðu upp á óvenjulega sýningu í gær, þegar fyrsta konan í embætti forsætisráðherra tók við embætti um morguninn og sagði starfinu lausu sjö tímum síðar. Það er skiljanlegt að allir hangi ekki með í þeim þveru köstum og móðursýkislegum tilfærslum sem ýmsir stjórnmálamenn taka sér fyrir hendur í Svíþjóð þessa dagana.

Í fyrsta lagi er staðan á þinginu næstum þverjöfn á milli hægri og vinstri flokkanna. Hægri flokkarnir Svíþjóðardemókratar, Móderater, Kristdemókratar og Frjálslyndir hafa samtals 174 atkvæði en 175 atkvæði gefur meirihluta á þingi með 349 þingmenn. Það þýðir að vinstri flokkarnir hafa 175 atkvæði – aðeins eins atkvæða meirihluta, sem ekki gefur neinn stöðugan meirihluta. Frjálslyndir studdu Stefan Löfven í byrjun þingtímabilsins en snérist hugur og komu til baka í borgaralega liðið. 8 flokkar eru á þinginu og einn þingmaður utan flokka, sem fær ótrúlega þýðingu sem vogarafl í stöðunni.

Tröllagrip sósíaldemókrata á samstarfsflokkum með hræðslulygum um Svíþjóðardemókrata

Eiginlega má segja, að ástandið sé rökrétt afleiðing af stefnu sósíaldemókrata að ræna þingið lýðræðinu með því að neita samstarfi á neinn hátt við Svíþjóðardemókratanna. Þannig náðu þeir Miðflokknum og Frjálslynda flokknum, sem báðir gengu til kosninga með loforði um að styðja hægri ríkisstjórn og hægri forsætisráðherra. En eftir kosningarnar 2018, þá sviku báðir flokkarnir og gengu í sæng sósíaldemókrata undir því yfirskyni að verið væri að bjarga landinu frá hinum hræðilegu Svíþjóðardemókrötum.

Fjárlög ríkisstjórnarinnar felld – fjárlög stjórnarandstöðunnar samþykkt

Allar götur síðan hefur reynt á þessa afstöðu og menn skilja að ekki er hægt að láta landið í arma sósíalismans í nafni þess að verið sé að berjast gegn hægri öflum. Þetta kom vel í ljós í gær, því Magdalena Andersson hafði aðeins verið fáa tíma í nýja starfinu, þegar fyrsti ósigur hennar sem forsætisráðherra kom: Fjárlög ríkisstjórnarinnar voru felld. Í staðinn voru endurskoðuð og breytt fjárlög stjórnarandstöðunnar samþykkt. Þar höfðu Svíþjóðardemókratar, Móderatar og Kristdemókratar starfað saman og lögðu sameiginlega fram frumvarp til fjárlaga sem var samþykkt.

Með því voru hendur ríkisstjórnarinnar bundnar, hún fékk ekki allar skattahækkanir í gegn t.d. á bensíni og dísel og voru skattalækkanir samþykktar í staðinn. Ástæðan fyrir samþykkt á fjárlögum stjórnarandstöðunnar var sú, að Miðflokkurinn lagði niður atkvæðin við atkvæðagreiðsluna og kom þar með í veg fyrir að hægt væri að fella fjárlög stjórnarandstöðunnar. Hefur Miðflokkurinn mátt þola óheyrilega gagnrýni og reiði margara fyrir vikið. Annie Lööf flokksleiðtogi sagði í síðustu kosningum að fyrr æti hún hægri skó sinn en að stuðla að því, að Stefan Löfven yrði forsætisráðherra. Núna neyðist hún líklega til að éta vinstri skóinn líka.

Umhverfisflokkurinn sleit samstarfi við ríkisstjórnina að sögn til að vinna ekki með „brúnblá“ fjárlög

Eftir ósigurinn með fjárlögin kom sá næsti fyrir Magdalenu Andersson: Umhverfisflokkurinn klauf sig úr ríkisstjórninni, því hann vildi ekki vinna að „brúnbláum“ fjárlögum án græna litarins, sem var farinn að sögn græningjanna. Eftir að Umhverfisflokkurinn hoppaði af stjórnarsamstarfinu var því engin önnur leið fær fyrir Magdalenu Andersson en að fara á fund forseta þingsins og biðjast lausnar. Sú ríkisstjórn sem hún hafði lofað forseta þingsins að myndi starfa fram að kosningum hélt aðeins í nokkra tíma.

Magdalena Andersson tilkynnti forseta þingsins hins vegar, að hún gæti alveg hugsað sér að verða forsætisráðherra aftur en þá fyrir minnihlutastjórn sósíaldemókrata án aðkomu annarra flokka. Og núna bregður svo við, að Miðflokkurinn sem sveik gagnvart fjárlögunum segir sig vera reiðubúna að verja minnihlutaríkisstjórn sósíaldemókrata falli.

Framhaldið í höndum Talmannsins Andreas Norlén

Hvernig málin fara eru í höndum talmannsins Andreas Norlén. Trúlegast er að hann feli Magdalenu aftur að mynda ríkisstjórn. Það eru fáir sem vilja þingkosningar núna, þegar svo stutt er í kosningarnar í september á næsta ári.

Hvernig sem málin fara er augljóst, að einungis aðkoma kjósenda getur leyst þann rembihnút sem sænsku stjórnmálin eru í um þessar mundir.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila