Upplýsingastefna stjórnvalda sett í Samráðsgátt

Forsætisráðuneytið hefur birt drög að upplýsingastefnu stjórnvalda í Samráðsgátt. Frestur til umsagna er til 9. október nk. Upplýsingastefnu stjórnvalda er ætlað að endurspegla gildi opinnar og vandaðrar stjórnsýslu og skilgreina megináherslur við miðlun og meðhöndlun upplýsinga.

Leiðarljós stefnunnar er að stjórnvöld viðhafi gagnsæja stjórnarhætti þar sem almenningur hefur aðgang að skýrum, traustum og áreiðanlegum upplýsingum um starfsemi stjórnvalda og opinber málefni.

Í stefnunni eru sett fram þrjú meginmarkmið:

  1. Gagnsæi í störfum stjórnvalda
  2. Öflug miðlun upplýsinga
  3. Greiður aðgangur að upplýsingum

Í drögunum segir að til þess að tryggja lýðræðislega samfélagsumræðu um opinber málefni þarf almenningur að hafa
aðgang að upplýsingum um starfsemi stjórnvalda, þar á meðal um meðferð opinberra fjármuna og eigna, ákvörðunartöku stjórnvalda og forsendur hennar
og um stefnumörkun. Upplýsingaréttur almennings fer fyrir lítið ef þessar upplýsingar eru ekki skráðar.
Það er því frumforsenda gagnsæis að upplýsingar um starfsemi stjórnvalda séu
skráðar, varðveittar og gerðar aðgengilegar.

Þá segir að liður í því að treysta gagnsæi er að löggjöf kveði á um rétt almennings til aðgangs að upplýsingum og að stjórnvöld meðhöndli upplýsingabeiðnir á þeim grundvelli eins fljótt og auðið er. Jafnframt er mikilvægt að stjórnvöld hafi frumkvæði að því að tryggja aðgang að upplýsingum um opinber málefni. Birting gagna stuðlar að auknu trausti á upplýsingagjöf stjórnvalda og eykur möguleika almennings og fjölmiðla á að veita stjórnvöldum aðhald. Með birtingu gagna að eigin frumkvæði stuðla stjórnvöld að því með virkum hætti að upplýsingar liggi fyrir um opinber
málefni.

Smellt hér til þess að skoða drögin

Deila