Utanríkisráðherra á Íslendingaslóðum vestan hafs

Íslendingadagurinn var haldinn hátíðlegur í Gimli í Manitóbafylki í Kanada á sunnudag og mánudag en um er að ræða stærstu hátíðarhöld fólks af íslenskum uppruna í Kanada. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra var heiðursgestur og fulltrúi ríkisstjórnarinnar á hátíðinni í ár. Þá tók Þórdís Kolbrún einnig þátt í Íslendingahátíð í bænum Mountain í Norður-Dakóta í Bandaríkjunum á laugardag.  

„Sú ræktarsemi sem afkomendur Vesturfara leggja við íslenskar rætur sínar er ákaflega falleg. Ég vildi að sem flestir Íslendingar hefðu tækifæri til að upplifa þá væntumþykju í garð Íslands sem hér er ríkjandi,“ sagði Þórdís Kolbrún.

Utanríkisráðherra flutti hátíðarræðu á Íslendingahátíðinni í Mountain og ávarp á Íslendingadeginum í Gimli. Í báðum ávörpum sínum lagði Þórdís Kolbrún áherslu á þakklæti til þeirra sem viðhalda þeim hefðum sem tengja Ísland við Íslendingasamfélögin í Norður-Ameríku og þau djúpu tengsl sem þar liggja á milli.

Í bænum Gimli búa að staðaldri um tvö til þrjú þúsund manns en á Íslendingadeginum sjálfum er talið að fjöldinn í bænum geti orðið allt að sextíu þúsund manns. Gestir koma víða að, bæði úr öðrum fylkjum Kanada og Bandaríkjunum, svo sem Norður-Dakóta og Minnesóta, þar sem stór samfélög fólks af íslenskum uppruna búa.  

Í tengslum við hátíðarhöldin heimsótti ráðherra einnig fjölda staða á Íslendingaslóðum bæði í Manitóba og Norður-Dakóta. Má þar til að mynda nefna Víkurkirkju í Mountain, sem er elsta íslenska lútherskirkjan í Vesturheimi, Menningarsafnið Nýja Ísland í Gimli, Víkingagarðinn og minnisvarða um Sigtrygg Jónasson, sem er kallaður faðir Nýja-Íslands. Hann tók þátt í staðarvali landnámsins og gegndi lykilhlutverki í stofnun sjálfsstjórnarsvæðisins Nýja-Ísland. Á þriðjudag heimsótti Þórdís Kolbrún Háskólann í Manitoba þar sem hún kynnti sér safn íslenskra bóka og bréfa sem þar eru hýst.

Utanríkisráðherra nýtti einnig ferðina og heimsótti Harbourfront Centre í Torontó sem stýrir menningarverkefninu Nordic Bridges. Þetta alþjóðlega verkefni, sem miðar að því að vekja athygli á norrænni list og menningu í Kanada á árinu 2022, er hið viðamesta nokkru sinni. Þá heimsótti Þórdís Kolbrún einnig höfuðstöðvar flughers Kanada í Winnipeg á föstudag og átti tvíhliða fund með Heather Stefansson, forsætisráðherra Manitóba fylkis.

Deila