Útvarp Saga telur ríkisstyrki til einkarekinna fjölmiðla ekki vera bestu leiðina

Umsögn frá Útvarpi Sögu til menntamálanefndar Alþingis

1. Útvarp Saga fagnar því framtaki mennta-og menningarmálaráðherra að láta mál einkarekinna fjölmiðla til sín taka og leiti leiða til að finna lausn á fjárhagsvanda fjölmiðlanna.  

2. Útvarp Saga telur hinsvegar að beinn fjárstuðingur úr ríkissjóði sé ekki besta leiðin til að standa vörð um lýðræðislega umfjöllun og tjáningarfrelsi í landinu.  Grundvallaratriði sé að allur fréttaflutningur og umfjöllun um fréttatengt efni, sé óháð fjárveitingarvaldi Alþingis. Blaða-og fréttamenn eigi að búa við þau starfsskilyrði sem vernda hlutleysisvilja stéttarinnar og koma í veg fyrir kælingaráhrif sem og ritskoðun.

3. Útvarp Saga hefur allt frá árinu 2007 bent á það sjónarmið hjá menntamálanefnd Alþingis að eðlilegra væri að skattgreiðendur gætu sjálfir valið þann fjölmiðil sem uppfyllir þarfir hvers og eins til upplýsinga og afþreyingar með því að merkja við á skattframtali sínu hvert nefskatturinn skuli renna.  Útvarp Saga telur þessa tilhögun lýðræðislega þar sem samkeppnisstaðan er bágborin með RUV inná auglýsingamarkaði og eignarhald á “stóru” einkareknu fjölmiðlunum sé, að hluta til, í höndum lífeyrissjóða landsmanna. Þessi leið, væri hvetjandi fyrir alla einkarekna fjölmiðla að vanda efnistök og framsetningu dagskrárefnis verulega.

4. Útvarp Saga telur að fjárhagsvanda einkarekinna fjölmiðla megi rekja til skorts á fylgni við samkeppnislög bæði íslensku lögin og ekki hvað síst samkeppnisskilyrði EES samningsins sem Ísland hefur skuldbundið sig til að hafa í forgangi í íslenskri lagaframkvæmd. ESA ( Eftirlitsstofnun EFTA ) hefur ítrekað þurft að gera athugasemdir við veru RUV á auglýsingamarkaði allt frá árinu 2008.

5. Útvarp Saga telur að fjárhagsvanda einkarekinna fjölmiðla megi lagfæra verulega með því að farið sé eftir ákvæðum EES samningsins og meginreglu skattalaga sem og jafnræðisreglu íslensku stjórnarskrárinnar.

Er í því sambandi átt við greiðslur á virðisaukaskatti á auglýsingum sem íslenskir fjölmiðlar hafa lagaskyldu til að leggja ofan á seldar auglýsingar en erlendar efnisveitur sem eru inná íslenskum auglýsingamarkaði greiða lítinn sem engan virðisaukaskatt til ríkissjóðs. Er ljóst, að með því fyrirkomulagi er íslenskum fjölmiðlum verulega mismunað og stenst tæplega skattalög eða jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. 

6. Útvarp Saga telur mikilvægt að Fjölmiðlanefnd framkvæmi reglulega mælingar á hlustun, lestri og áhorfi íslenskra fjölmiðla sem eru skráningar-og leyfisskyldir  til þess að fyrirliggjandi sé hver raunveruleg notkun er á fjölmiðlum í landinu. Jafnframt til að koma í veg fyrir blekkingar um hlustunar,áhorfs og lestrartölur sem kunna að vera notaðar í viðskiptasamböndum með auglýsingar. Mikilvægt er að allir fjölmiðlar séu mældir en ekki hluti þeirra til þess að sannar niðurstöður fáist um fjölmiðlanotkun. Framkvæmd fjölmiðlamælinga er uppspretta auglýsingafjármagns og hvernig það dreifist til fjölmiðla. 

10. janúar 2020

f.h. Útvarps Sögu ehf

Arnþrúður Karlsdóttir útvarpsstjóri.

Athugasemdir

athugasemdir

Deila