Vatnajökulsþjóðgarður stækkaður, Herðubreið og Herðubreiðarlindir hluti af þjóðgarðinum

Frá Vatnajökulsþjóðgarði.

Vatnajökulsþjóðgarður hefur verið stækkaður og svæðið sem tilheyrt hefur Herðubreiðarfriðlandi frá 1974 er nú hluti af þjóðgarðinum. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, undirritaði reglugerð þess efnis við Þorsteinsskála í Herðubreiðarlindum.

Við þjóðgarðinn bætist einnig stærri hluti Ódáðahrauns en þar er m.a. að finna Kollóttudyngju, Eggert og Bræðrafell.

Með breytingunum bætast 560 km2 við þjóðgarðinn en það er ríflega hálft prósent landsins. Í janúar 2018 hófst formlegt umsóknarferli vegna tilnefningar Vatnajökulsþjóðgarðs á heimsminjaskrá UNESCO og mun niðurstaða heimsminjanefndar liggja fyrir 5. júlí næstkomandi.

Svæðisráð norðursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs óskaði eftir stækkun þjóðgarðsins og er hún jafnframt liður í áðurnefndu tilnefningarferli fyrir heimsminjaskrána.

Stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs er mikilvægt skref í náttúruvernd. Með stækkun þjóðgarðsins fylgjum við eftir vilja heimafólks. Stækkunin er að auki liður í átaki stjórnvalda í friðlýsingum og hefur þýðingarmikla tengingu við tilnefninguna á heimsminjaskrána,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.

Um er að ræða einstakar jarðminjar og lindasvæði. Það er stórkostlegt að drottning íslenskra fjalla, Herðubreið, tilheyri nú stærsta þjóðgarði í Vestur-Evrópu – og að það gerist á 75 ára afmæli lýðveldisins Íslands.“ segir Guðmundur.

Athugasemdir

athugasemdir

Deila