25 sænskir vísindamenn senda Bandaríkjamönnum viðvörun: „Ekki fara sömu leið og Svíþjóð hefur gert”

Lýðheilsan í Svíþjóð hefur átt í vandræðum með að gefa upp réttar tölur og segir núna að um 5 800 Svíar geti dáið úr COVID 19 til viðbótar þeim 5 700 sem hafa látist fram að þessu. Samansetta grínmyndin ofan af Anders Tegnell smitsjúkdómasérfræðingi Lýðheilsunnar fór víða á félagsmiðlum í Svíþjóð.

Tegnell hefur átt erfitt með að vinna sér lýðhylli hjá mörgum Svíum síðustu mánuðina og nýtur lítils trausts margra vísindamanna í Svíþjóð vegna fullyrðinga um réttmæti „hjarðónæmisleiðarinnar.”USA Today birtir í dag bréf frá 25 veirusjúkdómasérfræðingum í Svíþjóð sem vara Bandaríkin við því að fylgja kórónustefnu Svíþjóðar: 

„Haldið út og gerið ekki það sem Svíþjóð hefur gert” skrifa sérfræðingarnir sem gagnrýna sænsku ríkisstjórnina harðlega fyrir léleg vinnubrögð og meðhöndlun á kórónufaraldrinum í Svíþjóð.

Segja þeir að tilgangur Lýðheilsunnar sé ”vafasamur” en slöpp afstaða yfirvalda hafi gengið út á að skapa „hjarðónæmi” sem þó hafi algjörlega mistekist samkvæmt eigin mælingum:


„Fjöldi Svía sem hafa þróað mótefni eru taldir undir 10% sem er langt frá því að nálgast hjarðónæmi. Há sænsk dánartala vekur ugg í brjósti. Svíþjóð hefur hærri dánartölu en Bandaríkin: 556 látna á hverja milljón íbúa miðað við 425 þann 20. júlí. Að auki er dánartala Svíþjóðar fjórum og hálfu sinnum hærri en á hinum Norðurlöndunum fjórum samanlagt – yfir sjö sinnum hærri tala miðað við hverja milljón íbúa.”


Sænsku vísindamennirnir slá föstu að leið Svíðþjóðar hafi leitt til „dauða, sorgar og þjáninga og þar að auki séu engin merki þess, að efnahagur Svíþjóðar hafi spjarað sig neitt betur en efnahagur fjölda annarrra landa.”
Vísindamennirnir halda áfram:

 „Eins og er, þá höfum við skapað fordæmi fyrir aðra í heiminum um það, hvernig ekki á að meðhöndla dauðlegan veirusjúkdóm.”


Lokaorð greinarinnar er: „Farið alls ekki sömu leið og Svíþjóð hefur gert.”

Deila