Verður Huawei hafnað? -Förum sömu leið og nágrannalönd í netöryggismálum

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis og þróunarsamvinnuráðherra.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir að Ísland muni horfa til nágrannalanda þegar kemur að netöryggismálum í tengslum við ákvarðanir sem teknar varðandi uppbyggingu fjarskiptakerfa. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Guðlaugs í síðdegisútvarpinu í dag en hann var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur.

Aðspurður um afstöðu hans til mögulega aðkomu kínverska fjarskiptarisans Huawei að uppbyggingu 5G netkerfa hérlendis segir Guðlaugur að hann leggi ríka áherslu á að fjarskiptamál séu þjóðaröryggismál og horfa beri til þess þegar ákvarðanir séu teknar og fylgt verði í fótspor grannþjóða í þeim efnum.

Því má ætla að afstaða stjórnvalda hérlendis sé sú að ekki verði gengið til samninga við Huawei en nú þegar hafa Danmörk, Noregur, Svíþjóð og Bretland hafnað Huawei. Í finnlandi eru umræður um uppbyggingu 5G rétt að hefjast og ætla stjórnvöld þar í landi ekki að taka ákvörðun fyrr en málið hefur verið rætt í þaula á þingi.

Þá vekur athygli að Huawei reyndi að beita tvo ráðherra í Danmörku þrýstingi í aðdraganda ákvörðunartöku þar í landi um málið en Kínverski risinn hótaði því í bréfi til ráðherranna að ef ekki yrði gengið til samninga við fyrirtækið myndu danir eiga á hættu að missa önnur viðskipti sem þeir hafa átt við kínverja.

Hlusta má á viðtalið við Guðlaug Þór í spilaranum hér að neðan.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila