Verulegar afléttingar innanlandstakmarkana strax og að fullu 18. nóvember

Almennar fjöldatakmarkanir verða 2.000 manns, grímuskyldu verður aflétt, opnunartími veitingastaða lengdur um klukkustund og skráningarskyldu gesta aflétt. Regla um nándarmörk verður áfram 1 metri. Þetta er megininntak breytinga á reglugerð um samkomutakmarkanir sem tekur gildi 20. október samkvæmt ákvörðun heilbrigðisráðherra. Stefnt er að fullri afléttingu samkomutakmarkana innanlands frá og með 18. nóvember.

Heilbrigðisráðherra kynnti áformaðar breytingar á fundi ríkisstjórnar í morgun. Byggt er á meðfylgjandi minnisblaði sóttvarnalæknis til heilbrigðisráðherra þar sem tilgreindir eru þrír valkostir afléttinga á sóttvarnaráðstöfunum innanlands, þ.e. full aflétting allra sóttvarnaaðgerða, aflétting að hluta eða óbreyttar aðgerðir.

Breytingar frá og með 20. október:

Almennar fjöldatakmarkanir 2.000 manns í stað 500.
Nándarregla óbreytt 1 metri, með sömu undantekningum og verið hafa, s.s. á sitjandi viðburðum og þjónustu sem krefst mikillar nándar.
Með notkun hraðprófa má víkja frá fjöldatakmörkunum og nándarreglu.
Grímuskyldu aflétt að frátöldum sérstökum reglum á heilbrigðisstofnunum.
Skráningarskyldu á viðburðum og veitingahúsum aflétt.
Opnunartími veitingastaða þar sem heimilaðar eru áfengisveitingar lengdur um klukkustund, til kl. 01:00. Rýma þarf staði fyrir kl. 02:00.

Full aflétting áformuð 18. nóvember

Stefnt er að fullri afléttingu allra samkomutakmarkana innanlands frá og með 18. nóvember, með fyrirvara um að faraldurinn þróist ekki verulega á verri veg, svo sem vegna mikillar fjölgunar innlagna á spítala vegna COVID-19 sem heilbrigðiskerfið ræður ekki við. Áfram verði beitt sýnatöku, einangrun, smitrakningu og sóttkví en þessi atriði verði þó endurskoðuð í samráði við sóttvarnalækni.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila