Vesturveldin hafa ýtt rússneska birninum í faðm kínverska drekans

Vladimir Pútín forseti Rússlands og Joe Biden forseti Bandaríkjanna hittust á stórveldafundi í Genf í dag.

Í þættinum Heimsmálin í dag var Haukur Hauksson fréttamaður Útvarps Sögu í Moskvu gestur þeirra Arnþrúðar Karlsdóttur og Péturs Gunnlaugssonar. Var rætt um stórfund forseta Rússlands og Bandaríkjanna í Genf í dag en beðið var eftir blaðamannafundum forsetanna, sem að þessu sinni var ekki haldinn sameiginlega að kröfu Joe Biden Bandaríkjaforseta.

Haukur Hauksson sagði, að það hefði vakið athygli, þegar flugvél með rússneskum fréttamönnum hefði komið til Genfar, þá hefði hún þurft að hringsóla yfir borginni, þar sem ekki var hægt að lenda vegna flugvélar Bandaríkjaforseta sem stóð á miðri flugvallarbraut í rúman klukkutíma. Vakti þetta undrun Rússanna og spurning, hvort þessi sýning Bandaríkjaforseta hefði verið af ásettu ráði. Einnig sagði Haukur frá furðulegum sérkröfum Bandaríkjanna m.a. um teppi á fundarstað, sem veitt gæti hrumum einstaklingum viðspyrnu svo þeir dyttu ekki.

Spenna í aðdraganda fundarins – tveir mismunandi blaðamannafundir að kröfu Bandaríkjaforseta

Mikil spenna var í aðdraganda fundarins, sérstaklega eftir að Joe Biden, nýorðinn forseti Bandaríkjanna lét þau stóryrði falla, að Vladimir Pútín forseti Rússlands væri sálarlaus morðingi. Samband stórveldanna hefur vægast sagt farið versnandi með stigmögnun Bandaríkjamanna, sem rekið hafa rússneska diplómata úr landi og ásakað þá um njósnir og inngrip í forsetakosningarnar. Sagði Haukur að þær ásakanir Bandaríkjanna kæmu furðulega út í augum Rússa enda hefðu Bandaríkjamenn engar sannanir fyrir þeim og þær því sögusagnir og rógburður í garð Rússlands.

Bjóst Haukur við því, að málefni Úkraínu og afvopnun kæmu upp á fundinum, þar sem tvö stærstu kjarnorkuveldi heims hittust. Óttaðist Haukur að Úkraína sé notað sem spil í stórveldaleik Bandaríkjanna en stórn Úkraínu hefur sóttst fast eftir að verða aðildarríki Nato. Taldi Haukur það ekki líklegt, þar sem Nato setur kröfur um aðildarríki sem Úkraína getur ekki uppfyllt, vegna innanlandsátaka og að auki myndi slík aðild kollvarpa stöðu Vesturvelda gagnvart Rússlandi, sem teldi sér ógnað ef bandarískir hermenn færu að vakta landamæri þeirra.

Rússar hafa ætíð viljað eiga viðskipti við Vesturlönd en klíka glóbalista í Bandaríkjunum reynir allt til að hindra viðskipti við Rússland

Sagði Haukur að Rússar væru praktískir og vildu nota tímann vel og ekki í einhver gæluverkefni forráðamanna Vesturlanda til heimabrúks eins og loftslagsmálin. Rússar trúa því ekki, að jörðin sé að farast og taka ekki þátt í þeim leik að stofna „græna lögreglu“ til að senda út um allan heim til að reka á eftir dómsdagskenningum. Haukur sagði að jafnvel þótt Biden vildi eiga viðskipti við Rússa myndi honum ekki takast það vegna harðlínumanna glóbalistaklíku í Bandaríkjunum sem stjórnuðu málum og hefðu sett 45-50 lög til að koma í veg fyrir útflutning Rússlands til Vesturlanda. Hefði þessi hegðun ýtt rússneska birninum beint í fang kínverska drekans og blómstruðu viðskipti og framkvæmdir Rússlands við Kína og útflutningur m.a. til Shanghai og Peking.

Hlusta má á þáttinn með því að smella á spilarann hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila