Viðreisn kynnti áherslur sínar í loftslagsmálum

Katrín Sigríður og Daði Már Kristófersson

Viðreisn áherslur sínar í loftslagsmálum og útlistaði þær aðgerðir sem gripið verður til fyrstu 100 daga nýrrar ríkisstjórnar ef Viðreisn á þar sæti.

“Viðreisn mun setja loftslagsmálin í forgang á næsta kjörtímabili, hvort sem er innan eða utan ríkisstjórnar. Mannkynið fékk rauða viðvörun í nýrri skýrslu IPCC og fráfarandi ríkisstjórn fær falleinkunn í loftslagsmálum. Góð umsögn Ungra umhverfissinna um umhverfisstefnu flokksins staðfestir hversu framarlega Viðreisn er í umhverfismálum og er skýr valkostur fyrir kjósendur sem leita að frjálslyndum flokki með metnað í loftslagsmálum.” segir Daði Már Kristófersson varaformaður Viðreisnar og frambjóðandi í Reykjavíkurkjördæmi suður

Viðreisn hlaut á dögunum staðfestingu þess efnis að umhverfis- og loftslagsstefna flokksins er með bestu stefnum landsins að mati Ungra umhverfissinna. Matskvarði samtakanna nefnist Sólin og tekur til loftslagsmála, hringrásarhagkerfis og náttúruverndar. Viðreisn fékk flest stig allra flokka fyrir hringrásarhagkerfi, lenti í öðru sæti í loftslagsmálum og í því þriðja fyrir náttúruvernd.

Fyrstu 100 dagarnir

Það er svo skrítið að heyra stjórnmálamenn tala um það að núna sé kominn tími á breytingar. Tíminn er löngu liðinn og ég tilheyri þeirri kynslóð sem mun bera þungann af áhrifum loftslagsbreytinga. Þess vegna gengur ekki að vera með ótímasetta stefnu með óljósum skilaboðum um framkvæmd. Skrefin þarf að taka núna, á þessu kjörtímabili, á fyrstu 100 dögunum og við getum það.

– Katrín Sigríður Júlíu Steingrímsdóttir ungliði og frambjóðandi í Reykjavíkurkjördæmi norður

Á fundinum fóru Daði Már og Katrín Sigríður yfir þau atriði sem Viðreisn stefnir á að gera í loftslagsmálum ef flokkurinn kemst í ríkisstjórn.

  • Lýsa yfir neyðarástandi í loftslagsmálum
  • Útfæra og kynna tekjuhlutlausa græna hvata
  • Leiða í lög -60% losunarmarkmið fyrir árið 2030 m.v. 2005 fyrir losun á ábyrgð Íslands
  • Birta áætlun og aðgerðir til að minnka losun vegna landnotkunar um 50% árið 2030 m.v. 2020
  • Leiða í lög að þau fyrirtæki sem losa mest á Íslandi (t.d. stóriðjan) setji sér markmið um kolefnishlutleysi fyrir árið 2040 og birti samsvarandi aðgerðaáætlun

Grænir skattar og tekjuhlutleysi

Stefna Viðreisnar er að þau sem menga beri umhverfiskostnaðinn vegna eigin mengunar. Því sé best náð fram með grænum sköttum sem hvetji til umhverfisvænnar hegðunar.

Viðreisn vill ekki að grænir skattar auki umsvif ríkisins heldur verði tekjuhlutlausir fyrir ríkið. Tekjur af grænum sköttum verði nýttir til að koma til móts við tekjulægri hópa samfélagsins, sem og þeirra sem búa í dreifbýli og reiða sig hlutfallslega meira á aðföng sem bera kolefnisgjald. Með þessari sérstöðu er hvatt til aðgerða án þess að skerða lífskjör.

Græn nýsköpun og fjórða stoð hagkerfisins

Baráttan við loftslagsbreytingar kallar á nýsköpun í orku- og loftslagsmálum og þar er Ísland í dauðafæri að mati Viðreisnar. Grænn loftslagsiðnaður gæti orðið fjórða stoð íslenska hagkerfisins og skapað fjölda spennandi starfa. Fyrirtæki á borð við Carbfix og Carbon Recycling eru dæmi um sprota sem hafa dafnað í þeim frjóa jarðvegi sem finna má á Íslandi fyrir slíkan iðnað.

Athugasemdir

athugasemdir

Deila