Alþjóðaviðskipti, jafnréttismál og Brexit til umræðu á ráðherrafundi EFTA í Liechtenstein

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra sótti fundinn fyrir Íslands hönd

Staða fríverslunarviðræðna, horfur í alþjóðaviðskiptum, samskiptin við Evrópusambandið og Brexit voru helstu umræðuefnin á ráðherrafundi Fríverslunarsamtaka Evrópu EFTA, sem fram fór í Liechtenstein í gær. Að frumkvæði Íslands verða ákvæði um jafnréttismál eftirleiðis hluti af samningsmódeli EFTA.  Árlegur sumarfundur EFTA-ráðherranna var að þessu sinni haldinn í bænum Malbun í Liechtenstein og sótti Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra fundinn fyrir hönd Íslands.

Áhyggjur af þróuninni í alþjóðaviðskiptum

Á fundinum létu ráðherrarnir í ljós áhyggjur af horfum í alþjóðaviðskiptum, meðal annars vegna vaxandi tilhneigingar til verndarstefnu, um leið og þeir ítrekuðu vilja sinn til að standa vörð um frjáls milliríkjaviðskipti sem byggjast á á gagnsæi og skýrum leikreglum.

Ráðherrarnir fögnuðu því að EFTA hefur nú uppfært samningsmódel sitt um sjálfbæra þróun og tekið jafnréttisákvæði inn í það.

Frá árinu 2010 hafa allir nýir og uppfærðir fríverslunarsamningar EFTA innihaldið sérstaka kafla um viðskipti og sjálfbæra þróun, þar sem undirstrikaðar eru skuldbindingar ríkjanna á sviði umhverfis- og vinnumála.

Átta nýjar greinar inn í samningsmódeilið

Átta nýjum greinum er bætt inn í samningsmódelið, meðal annars um viðskipti og loftslagsbreytingar, líffræðilegan fjölbreytileika og sjálfbæra nýtingu fiskistofna.

Þá er sérstök grein um jafnrétti kynjanna þar sem ríki skuldbinda sig til að hafa jafnréttissjónarmið að leiðarljósi í viðskiptum sín á milli, en Ísland hefur lagt mikla áherslu á að slíkt ákvæði verði tekið upp í fríverslunarsamninga EFTA.

Einnig er ákvæði um jafnréttissjónarmið bætt við formálskafla samningsmódels EFTA. 

Jafnrétti er einn af hornsteinum utanríkisstefnunnar og í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á að við gerð fríverslunarsamninga skuli sérstaklega horft til þess að efla umhverfissjónarmið og mannréttindi, þar með talið réttindi kvenna. Það er fagnaðarefni að ákvæði þess efnis hafi nú verið tekið upp í samningsmódel EFTA að tillögu Íslands,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.

Athugasemdir

athugasemdir

Deila