Varað við aftakaveðri

Spáð er aftakaveðri á landinu á morgun og er appelsínugul viðvörun í gildi á Suðurlandi, Suðvesturlandi, Vesturlandi, Norðvesturlandi og Norðausturlandi.

Á Austur og Suðausturlandi er gul viðvörun í gildi. Samkvæmt upplýsingum Veðurstofu Íslands er spáð gríðarlegri úrkomu og er búist við að vindur verði frá 20 til 30 metrar á sekúndur á þeim stöðum þar sem appelsínugul viðvörun er í gildi.

Gert er ráð fyrir að veðrið byrji að versna upp úr hádegi á morgun og nái hámarki á höfuðborgarsvæðinu um kvöldmatarleytið, en búast má við að veðrið standi yfir þar til um miðbik aðfararnætur miðvikudags.

Lögreglan og tryggingafélög hafa sent frá sér tilkynningar þar sem fólki er bent á að reyna að festa allt lauslegt utan dyra og öðru sem hætta er á að geti fokið og valdið tjónum eða slysum.

Þá er fólki bent á að á meðan viðvörunin er í gildi sé ekkert ferðaveður og að ákvörðun um lokanir vega verði metnar reglulega á meðan lægðin fer yfir landið.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila