Viktor Orbán boðar til þjóðaratkvæðagreiðslu um barnaverndarlögin til að þjóðin segi sitt gegn yfirgangi og frekju ESB

Viktor Orbán forsætisráðherra Ungverjalands bregst gegn árásum ESB og boðar til þjóðaratkvæðagreiðslu um barnaverndarlögin (©connect@epp.eu) 

VIKTOR ORBAN forsætisráðherra Ungverjalands boðar, að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um umdeild barnalög, þar sem spennan er í hæstu hæðum vegna frekjugangs búrókratanna í Brussel. Sagði hann í dag að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um barnaverndarlögin til að sporna gegn þrýstingi ESB, sem krefst breytinga á nýlegum lögum um menntamál og barnavernd.

Orbán segir á myndbandi á Facebook að „á undanförnum vikum hefur Brussel á skýran hátt ráðist á Ungverjaland vegna barnaverndarlaganna. Ungversk lög leyfa ekki kynferðislegan áróður í leikskólum, barnaskólum, í sjónvarpi og í auglýsingum. Framtíð barna okkar er í húfi, þannig að við getum ekki afsalað okkur þessu máli.“

Ekki var sagt, hvenær atkvæðagreiðslan fer fram en fólk á að svara fimm spurningum m.a. hvort Ungverjar styðji að kynhneigðarnámskeið verði haldin í barnaskólum án samþykkis foreldranna og hvort þeir telji að stuðla beri að kynleiðréttingarferli barna.

Þjóðaratkvæðagreiðslan er tikynnt eftir að framkvæmdastjórn ESB hefur hafið formlegt dómstólsferli gegn Ungverjaland og Póllandi fyrir brot á reglum ESB. Framkvæmdastjórn ESB hefur enn ekki tjáð sig um áætlun Orbans um þjóðaratkvæðagreiðsluna en segir barnaverndarlögin mismuna samkynhneigðum og transfólki.

Judit Varga, dómsmálaráðherra Ungverjalands, sagði á Facebook að ESB væri að „sverta“ Ungverjaland vegna barnaverndarlaga þar sem „aðgerðasinnum samkynhneigðra og transfólki er ekki hleypt með kynferðisáróður inn í ungverska leikskóla og grunnskóla.“

Fidesz-flokkur Viktor Orbáns segir í yfirlýsingu, að skýrsla framkvæmdastjórnarinnar sé „full af ósönnum fullyrðingum sem samtök Soros hafa fyrirskipað Brussel, vegna þess að Ungverjaland lætur ekki undan valdastefnu frjálshyggjuálitsins.“

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila